Vandræðalegasti viðskiptafarsi síðari ára

Skúli segir skiptastjórum WOW air hafa borið skylda til að …
Skúli segir skiptastjórum WOW air hafa borið skylda til að athuga trúverðugleika Ballarin strax í upphafi. Haraldur Jónasson/Hari

Skúli Gunnar Sigfússon, oft kenndur við Subway, tekur undir með þeim sem segja skiptastjóra WOW air hafa eytt dýrmætum tíma og fjármunum búsins í það sem hann segir „einn vandræðalegasta viðskiptafarsa sem almenningur hefur orðið vitni að síðari ár“.

Skúli segist vera kröfuhafi í bú WOW air og hann taki undir orð þeirra kröfuhafa sem Vísir ræddi við fyrr í dag. „Ég vek athygli á því, líkt og ég hef reyndar gert áður, að Sveinn Andri Sveinsson rukkar 49.600 kr. fyrir hverja klukkustund sem hann vinnur, eða segist vinna, við þrotabú,“ segir Skúli og vekur máls á því að hvorki Svein Andra né Þorstein Einarsson, sem einnig er skiptastjóri búsins, hafi leiðrétt þá rangfærslu að búið væri að greiða kaupverð að fullu.

„Ábyrgð skiptastjóranna er því mikil. Ljóst er að „viðskiptin” eiga sér aðdraganda og því hefur mörgum dýrmætum vikum og fjármunum verið sóað auk þess sem almenningur og kröfuhafar hafa verið hafðir að fíflum. Aðrir kaupendur, þ.m.t. svokallaður WAB hópur, fengu þau skilaboð eins og almenningur, að búið væri að selja þessar eignir og fóru því frá borðinu. Samningsstaða þeirra og annarra kaupenda er nú mun sterkari en áður og líklegt að þeir fái búið á lægra verði eftir þetta fíaskó skiptastjóranna.“

Segir Skúli það hafa tekið sig 2-3 mínútur með aðstoð Google að finna út að ekki væri allt með felldu varðandi viðskipti um leið og þau voru tilkynnt.

„Þetta forrit fann ekkert um þennan viðskiptajöfur frá Bandaríkjunum né fyrirtæki hennar USAerospace nema eitthvert bull tengt stríðsherrum og sjóræningjum í Sómalíu.“

Deilir skrifstofu með Sveini Andra

Skiptastjórum WOW hafi borið skylda til að athuga trúverðugleika Ballarin strax í upphafi áður en þeir eyddu tíma og fjármunum búsins í að setja á fót einhver sýndarviðskipti. „Það hefði tekið þá nokkrar mínútur, líkt og það tók mig.“

Því næst bendir Skúli á að Sveinn Andri og lögmaður Ballarin, Páll Ágúst Ólafsson, deili lítilli skrifstofu í Grjótagötu 7. „Ástæða er til að skoða hver tengsl þeirra voru í þessum viðskiptum. Hefur Páll fengið eitthvað greitt frá Ballarin vegna þessara viðskipta og hefur Sveinn Andri fengið einhverja þóknun frá Páli tengt því að koma þessum „kaupum“ á eða fyrir aðra þjónustu?“

Setja þurfi skiptastjóra af og skipa hæfa einstaklinga til að sinna „þessu mikilvæga verkefni, t.d. einn heiðvirðan lögmann og einn endurskoðanda. Héraðsdómur Reykjavíkur ætti að sjá sóma sinn í að skipa konur til tilbreytingar en sagan sýnir að miðaldra karlar hafa verið í sérstöku uppáhaldi hjá dóminum undanfarin ár þegar kemur að skipan skiptastjóra í feitum þrotabúum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert