Krabbadýr hafa líklega étið af hræinu

Á sunnudag var hræið neðst í fjörunni.
Á sunnudag var hræið neðst í fjörunni. Ljósmynd/Inga Hrönn Sverrisdóttir

„Þetta er orðið svolítið gamalt hræ. Húðin er dottin af og þess vegna er hann hvítur. Þegar húðin þornar þá losnar hún svo auðveldlega frá spikinu,“ segir Sverrir Daníel Halldórsson, líffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, um hvalinn sem rak á land í Fellsfjöru í samtali við mbl.is.

Húðin er farin af hræinu og því er það hvítt.
Húðin er farin af hræinu og því er það hvítt. Ljósmynd/Inga Hrönn Sverrisdóttir

Athygli vakti í dag þegar Adolf Ingi Erlingsson leiðsögumaður birti myndir inn á Facebook-síðu Bakland Ferðaþjónustunnar af hvalhræinu sem reyndist vera af grindhvali eða marsvíni eins og þeir eru stundum kallaðir. 

Telur ekki að um bitför séu að ræða

Hræið af hvalnum lá töluvert langt uppi í fjörunni og voru ferðamenn og aðrir forvitnir mjög. Hvalurinn var enda nokkuð illa farinn og sumir töldu sig merkja bitför á skrokknum. Sverrir Daníel er þó með aðra kenningu:

„Förin á honum eru líklegast eftir marflær. Það er lítið krabbadýr í fjörunni. Kannski hefur hann fengið sár af steini eða einhverju slíku, þá opnast inn í kjötið og marflóin kemst inn.“

„Mér sýnist það svona á þeim myndum sem ég hef séð að þetta séu allavega ekki bitför,“ bætir hann við.

Götin á hræinu eru líklega eftir steina segir Sverrir Daníel.
Götin á hræinu eru líklega eftir steina segir Sverrir Daníel. Ljósmynd/Inga Hrönn Sverrisdóttir

Sveitarfélagið þarf að sjá um hræið

Landverðir og lögregla urðu fyrst vör við hræið á sunnudag og létu þá Umhverfisstofnun og Hafrannsóknastofnun vita. Landvörður á Breiðamerkursandi fór í kjölfarið og tók sýni og myndir að beiðni Hafrannsóknastofnunar. Þá var hræið hins vegar ekki komið á þann stað sem það er núna heldur hefur það líklega rekið út á sjó aftur og hafnað svo á eystri-Fellsfjöru.

Hræið er töluvert illa farið.
Hræið er töluvert illa farið. Ljósmynd/Inga Hrönn Sverrisdóttir

Sverrir segir að ekkert sé hægt að segja til um dánarorsök að svo stöddu máli því enn eigi eftir að rannsaka sýnin. Þetta sé þó ekki endilega óvanalegt að hval reki þarna á land heldur gerist það annað slagið.

Helga Árnadóttir þjóðgarðsvörður á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs segir þó í samtali við mbl.is að þetta sé í fyrsta skipti síðan Vatnajökulsþjóðgarður tók við svæðinu árið 2017 sem hval reki þarna á land. Hins vegar hafi selshræ rekið þarna á land sem og einnig rostung.

Hún segir að sveitarfélagið þurfi að urða hræið ef það er strandað. Sverrir Daníel segir að afskiptum Hafrannsóknastofnunar af því sé lokið og því þurfi Umhverfisstofnun eða sveitarfélagið að ákveða hvað eigi að gera við það.

Ekki er hægt að segja til um hver dánarorsök var.
Ekki er hægt að segja til um hver dánarorsök var. Ljósmynd/Inga Hrönn Sverrisdóttir
Hvalurinn er talinn hafa verið um fjóra metra á lengd …
Hvalurinn er talinn hafa verið um fjóra metra á lengd þegar hann var fullfrískur. Ljósmynd/Inga Hrönn Sverrisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert