Ungadauði í „mengaðasta firði Íslands“

Æðarungarnir drepast við að synda inn í olíubrák. Fullorðnu fuglarnir …
Æðarungarnir drepast við að synda inn í olíubrák. Fullorðnu fuglarnir eru líklegri til að hafa það af. Ljósmynd/Hlynur Vestmar Oddsson

Æðarungar í Seyðisfirði drepast í hrönnum vegna olíu sem lekur í sjóinn úr El Grillo, gamla skipsflakinu á botni fjarðarins. Á ljósmyndum sem mbl.is hefur fengið sendar frá Hlyni Vestmari Oddssyni sjást olíubrákir sem æðarkollur þurfa að synda í gegnum með unga sína, iðulega með þeim afleiðingum að ungarnir hafa það ekki af.

Svo koma mávar og nema dauða ungana á brott og éta. Þá eru sönnunargögnin horfin, segir Hlynur í samtali við mbl.is. En myndir hverfa ekki.

Hlynur er kajakleiðsögumaður á Seyðisfirði á sumrin. Hann segir olíuna …
Hlynur er kajakleiðsögumaður á Seyðisfirði á sumrin. Hann segir olíuna verða mikla í sjónum þegar hann hitnar. Ljósmynd/Facebook

„Þetta er algerlega ömurlegt,“ segir Hlynur, sem er kajakleiðsögumaður í firðinum á sumrin. „Maður er að fara hérna um fjörðinn og róa með ferðamönnunum í gegnum þessa blessuðu olíu. Það eina sem ég get sagt við þá er: Sjáið hvernig Hitler er enn þá að drepa lífríkið okkar, dauður í sjötíu ár!“

El Grillo var eins og kunnugt er olíubirgðaskip Bandamanna sem sökkt var af þýskum herflugvélum í sprengjuárás í seinni heimsstyrjöld. Í þeim skilningi er Hitler auðvitað ábyrgur fyrir lekanum.

Vill láta Þjóðverja fjarlægja flakið

„Fólki er bara alveg sama. Það er enn að dropa úr skipinu. Það liggur enn þá fullt af svartolíu undir þiljunum milli bandanna og hún lekur út á mörgum stöðum,“ segir Hlynur. Síðasta hreinsun var gerð upp úr aldamótum af norskum verktökum en öll olían var ekki tekin. Áður en ráðist var í þær aðgerðir var talið að 91 tonn af olíu væri um borð.

Æðarungarnir eru oftast hirtir af mávunum um leið og þá …
Æðarungarnir eru oftast hirtir af mávunum um leið og þá rekur dauða á land. Ljósmynd/Hlynur Vestmar Oddsson

Hlynur lýsir því hvernig viðkvæmir æðarungarnir hafi það fæstir af að synda í gegnum olíubrák. Þeir sem ekki eru orðnir fiðraðir drepist næstum undantekningarlaust. Hann segir að lítill vilji sé fyrir hendi til þess að hreinsa skipið almennilega. Óheppilegast er að mengunin er mest á sumrin, þegar sjórinn hitnar, og það er einmitt þá sem lífríkið er hvað viðkvæmast.

Skipið hefur legið á botninum frá því í seinni heimsstyrjöld og Seyðisfjörður hefur að sögn Hlyns þess vegna verið í gegnum tíðina mengaðasti fjörður landsins. Svo er enn áfram, þar til eitthvað verður gert. „Það þarf bara að fjarlægja skipið og láta Þjóðverjana borga þetta,“ leggur Hlynur til. „Þeir eiga nóg af pening.“

Ófáar svona olíubrákir sjást nú víða í Seyðisfirði.
Ófáar svona olíubrákir sjást nú víða í Seyðisfirði. Ljósmynd/Hlynur Vestmar Oddsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert