Á morgun hefjast leikarnir

Íslensku keppendurnir í aðalkeppninni: Annie Mist Þórisdóttir, Katrín Tanja Davíðsdóttir, …
Íslensku keppendurnir í aðalkeppninni: Annie Mist Þórisdóttir, Katrín Tanja Davíðsdóttir, Björgvin Karl Guðmundsson, Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir, Oddrún Eik Gylfadóttir og Þuríður Erla Helgadóttir. Ljósmynd/Aðsend

Á morgun hefst heimsmeistaramótið í Crossfit 2019, Crossfit-leikarnir eins og þeir eru kallaðir. Íslendingu keppendurnir í aðalkeppni einstaklinga eru sex, fimm konur og einn karl. Auk þeirra keppa fjórir í aldursflokkum, tveir í 35-39 ára, einn í 14-15 ára og einn í 60 ára og eldri.

Hópurinn er kominn út og bíður þess að keppnin hefjist. Keppendurnir vita ekkert hvað þeir eiga í vændum og á hverju ári eru nýjar og ólíkt krefjandi þrautir lagðar fyrir keppendur. Þeir fá stuttan fyrirvara til að demba sér í æfingarnar. Óvissan er því mikil en þó er ekki að sjá að hún sé að buga keppendurna.

Kvíðinn virðist ekki vera að fara með þau í Madison. …
Kvíðinn virðist ekki vera að fara með þau í Madison. Keppnin hefst á morgun. Ljósmynd/Aðsend

Leikarnir eru sem sé haldnir 1.-4. ágúst í borginni Madison í Wisconsin í Bandaríkjunum, eins og síðustu tvö ár. Keppt er um titilinn hraustasta kona heims og hraustasti karl heims. 

Flestra augu beinast að einstaklings keppni karla og kvenna þar sem skærustu stjörnur Íslendinga mæta til leiks. Í kvennaflokki eru fimm íslenskir keppendur. Það eru þær Annie Mist Þórisdóttir, Katrín Tanja Davíðsdóttir, Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir, Oddrún Eik Gylfadóttir og Þuríður Erla Helgadóttir. Í karlaflokki er einn keppandi en það er Björgvin Karl Guðmundsson. Allir eiga þessir keppendur það sammerkt að hafa áður keppt en árangur Íslendinga ekki farið fram hjá neinum: í þessum hópi eru hvorki meira né minna en fjórir heimsmeistaratitlar. Annie Mist með tvo og Katrín Tanja tvo. Björgvin Karl endaði svo í 3. sæti árið 2015. 

Auk þeirra eru umræddir fjórir keppendur í mismunandi aldursflokkum í ár. Það eru Sigurður Hjörtur Þrastarson og Stefán Helgi Einarsson í flokki 35-39 ára, Brynjar Ari Magnússon  í flokki unglinga 14-15 ára og loks Hilmar Harðarson í flokknum 60 ára og eldri en Hilmar gerði sér einmitt lítið fyrir og sigraði sinn flokk árið 2013.

Ljóst er að keppnin verður afar hörð og líklegt að úrslitin munu ráðast á lokametrunum í kvennaflokki þar sem spennan hefur verið mikil síðustu ár. Íslensku stelpurnar eru eftir því sem best verður komist í afar góðu standi og eru þær til alls líklegar. Keppnin í karlaflokki hefur verið minna spennandi þar sem Mat Fraser hefur unnið með yfirburðum þrjú ár í röð og þykir hann afar sigurstranglegur. 

Leikvangurinn þar sem leikarnir verða haldnir.
Leikvangurinn þar sem leikarnir verða haldnir. Ljósmynd/Aðsend

Undirbúningur fyrir svona stóran viðburð, sem sjónvarpað er um allan heim, er gríðarlega mikill og verið er að leggja lokahönd á keppnissvæðið. Crossfit-leikarnir eru þekktir fyrir að vera afar vel skipulagðir og skemmtilegir á að horfa. Veðrið hefur stundum sett strik í reikninginn en veðurspá yfir helgina er með besta móti eða um 30 gráður og heiðskírt. 

Reikna má með að fyrstu æfingar mótsins verði birtar keppendum í dag en undanfarin ár hefur mótið byrjað með löngum æfingum sem byggja á þreki og tækni og má þar nefna sund, hjól eða hlaup.

Akureyringarnir Daníel Matthíasson, Kristinn ingólfsson, Sigurður Hjörtur Þrastarson, sem er …
Akureyringarnir Daníel Matthíasson, Kristinn ingólfsson, Sigurður Hjörtur Þrastarson, sem er vel að merkja keppandi í 35-39 ára flokki, og Ingi Torfi Sverrisson. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert