Eldurinn ekki hjá Fiskmarkaðinum

mbl.is/Hari

Fiskmarkaður Suðurnesja er ekki til húsa í þeim hluta iðnaðarhússins að Fornubúðum 3 í Hafnarfirði sem eldur brennur nú í að sögn stöðvarstjóra fyrirtækisins. Fyrirtækið sé í þeim enda hússins sem slökkviliðið sé að reyna að verja.

Fram hefur komið í fjölmiðlum í morgun að kviknað sé í húsnæði Fiskmarkaðar Suðurnesja en Kristján Atli Ragnarsson, stöðvarstjóri fyrirtækisins í Hafnarfirði, segir í samtali við mbl.is að eldurinn hafi ekki komið upp í húsakynnum þess.

mbl.is

„Við erum í þeim enda hússins sem eldurinn er alla vega ekki enn í. Við erum að vona að slökkviliðinu takist að halda eldinum frá okkar hluta hússins,“ segir Kristján sem fór á staðinn í morgun til þess að taka stöðuna á eldsvoðanum.

„Ég var þarna niður frá áðan og er núna kominn heim aftur og maður situr bara og bíður og krossleggur fingur að það sleppi sem við erum með þarna. En eldurinn kom ekki upp hjá okkur og er ekki okkar megin, alla vega ekki enn þá.“

mbl.is/Hari

„Ég ræddi við lögregluna áðan og þeir sögðu bara að við yrðum bara að bíða, þeir yrðu að fá að slökkva eldinn og síðan kæmi bara í ljós hver staðan á okkar hluta hússins væri,“ segir Kristján. Ekki verði betur séð en hinn hluti hússins sé ónýtur.

Tómt bil er á milli húsnæðis fiskmarkaðarins og þess hluta hússins þar sem eldurinn kom upp að sögn Kristjáns. Tvö önnur fyrirtæki eru með starfsemi í húsinu, IP dreifing sem selur vinnufatnað og IC Core, heildverslun með sjávarafurðir.

mbl.is/Hari
mbl.is/Hari
mbl.is/Hari
mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert