Krónan fær ekki íslenska lambahryggi

Krónan hugar að innflutningi á lambakjöti.
Krónan hugar að innflutningi á lambakjöti. mbl.is/Hjörtur

„Við erum ekki að setja hryggi í sölu en við erum svo sannarlega að huga að innflutningi [á lambahryggjum]. Við gerum ráð fyrir því að innflutningur verði heimilaður því það er augljós skortur á markaði,“ segir Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, í samtali við mbl.is.

Greint var frá því í Morgunblaðinu í dag að tugir tonna af  innfluttum lambahryggjum væru á leiðinni til Íslands og þeir gætu verið komnir í búðir í næstu viku.

Hryggirnir voru pantaðir eftir að ráðgjafanefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara lagði til við ráðherra að gefinn yrði út tímabundinn innflutningskvóti á lækkuðum tollum til að bregðast við skorti á innlendum lambahryggjum.

Áður en ráðherra veitti leyfi til að opna tollkvóta á lambahryggjum bárust nýjar upplýsingar frá framleiðendum sem þýddi að skilyrði fyrir leyfisveitingu var ekki lengur fullnægt. Ráðherra óskaði því eftir að ráðgjafanefndin endurmæti hvort þörf væri á að flytja inn lambahryggi og á nefndin að skila niðurstöðu í þessari viku.

Pólitíkin ræður ekki för heldur þarfir viðskiptavina

Gréta segir að pólitíkin vegna innflutnings hryggja geti ekki verið aðalatriði hjá fyrirtækjum eins og Krónunni. Aðalatriðin séu viðskiptavinirnir og þeirra þarfir.

„Markmið okkar er að þjónusta okkar viðskiptavini og þegar það er skortur á vöru, hvort sem það er grænmeti eða kjöt, þá reynum við að finna sambærilega vöru þannig að viðskiptavinir geti haldið áfram að versla við okkur,“ segir hún og bætir við:

„Aðalbirginn okkar er Norðlenska, sem við eigum mjög gott samband við. Þeir upplýstu okkur fyrir löngu síðan um að þeir ættu ekkert til. Síðan höfum við náð að redda okkur hér og þar. Svo kom í fréttunum að KS hefði fengið magn af hryggjum en við höfum ekki getað keypt af þeim. Það var bara ekki til.“

Aðilar sem eiga magn láti Krónuna vita

Staðan er því þannig að Krónan þarf að byrja að horfa til innflutningsaðila hvað lambahryggi varðar því skortur virðist vera hjá afurðastöðvum og framleiðendum. Gréta tekur þó fram Krónan vilji helst styrkja íslenskan iðnað.

„Við höfum beðið ráðgjafanefndina um upplýsingar um hverjir það eru sem eiga vöruna svo við getum keypt hana. Ef niðurstaðan er sú að lambahryggir séu til einhvers staðar, magn af hryggjum, þá viljum við geta keypt það,“ tekur Gréta skýrt fram.

„Við styðjum íslenskan iðnað og viljum alltaf selja íslensku vörurnar. Það eina sem við biðjum um er að ef það eru aðilar sem eiga magn, að þeir láti okkur vita og selji okkur það,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert