Líklega tjón upp á hundruð milljóna

Haraldur Jónsson eigandi húsnæðisins segir ljóst að skemmdirnar eru miklar.
Haraldur Jónsson eigandi húsnæðisins segir ljóst að skemmdirnar eru miklar. mbl.is/Snorri

„Það er ljóst að húsið er mjög illa farið,“ segir Haraldur Reynir Jónsson, eigandi alls atvinnuhúsnæðisins í Hafnarfirði sem brann í nótt. Helmingur hússins er eiginlega alveg ónýtur og var sá hluti hússins notaður undir fiskvinnslu hvers konar. Tvö fyrirtæki voru þar með starfsemi, IP útgerð og IC Core.

Þar inni var ýmis dýr matvælavinnslubúnaður og má ætla að tjónið hlaupi á hundruðum milljóna, að sögn eiganda húsnæðisins, sem leigði nefndum fyrirtæki rými í húsinu.

mbl.is

Næstu skref eru að meta tjónið áfram en Haraldur segir ljóst að tjónið sé upp á verulegar fjárhæðir, þó að engu verði slegið föstu í bili. Engar hugmyndir eru enn uppi um hvað kann að hafa valdið.

Brátt verður farið inn í það rými hússins sem varð hvað skást úti í brunanum, austurhluta hússins. Þar verður kannað hversu mikið tjón er orðið, en ljóst er að einhverjar eru reykskemmdirnar. Í þeim hluta hússins er fiskheildsala, það er Fiskmarkaður Suðurnesja.

Þetta er vinstri hlið hússins, þar sem matvælaframleiðsla fór fram …
Þetta er vinstri hlið hússins, þar sem matvælaframleiðsla fór fram tengd fiski. Hægra megin á mynd glittir í austurhluta hússins, sem er betur farinn. Þar var fiskmarkaður, heildsala. mbl.is/Hari

„Ég frétti ekki af þessu fyrr en á áttunda tímanum en eldurinn kom upp um miðja nótt,“ segir Haraldur.

Í skemmunni eru fjögur rými. Tvö þeirra voru notuð í matvinnslu og þau eru bæði illa brunnin. Eitt var ekki í notkun, en átti að fara á leigu í byrjun ágúst, en ljóst er að ekki verður af því, að sögn Haraldar.

Í morgun logaði enn mjög í glæðum í húsinu.
Í morgun logaði enn mjög í glæðum í húsinu. mbl.is/Hari
mbl.is