Reyna að hefta útbreiðslu eldsins

mbl.is/Hari

„Það logar vel í þessu og mikill hiti í þessu enn þá,“ segir Sigurjón Hendriksson, varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is vegna eldsvoðans í húsnæði sem hýsir Fiskmarkað Suðurnesja við Fornubúðir í Hafnarfirði. Tilkynnt var um eldinn klukkan rúmlega þrjú í nótt og hefur slökkviliðið unnið að því að ráða niðurlögum eldsins.

Reiknað er með því að slökkvistarf haldi áfram fram eftir degi en allt tiltækt slökkvilið var ræst út auk aðstoðar frá Brunavörnum Árnessýslu og Brunavörnum Suðurnesja. Tekist hefur að rjúfa þakið þar sem eldurinn kraumar til þess að hleypa þrýstingnum út en áherslan er á það að koma í veg fyrir að eldurinn breiðist út í önnur rými húsnæðisins.

mbl.is/Hari

Húsnæðið er um 4.000 fermetrar og er verið að reyna að verja hinn helming hússins. „Ég vona nú að við séum að ná að skera á þetta svo þetta dreifist ekki meira,“ segir Sigurjón. Ekki er vitað til þess að nokkur hafi verið í húsinu þegar eldurinn kom upp. Nærliggjandi hús hafa verið rýmd með aðstoð lögreglu en íbúðarhús eru í nágrenninu.

„Það var það mikill reykur sem náði þangað að við sáum ástæðu til þess að rýma næstu hús,“ segir Sigurjón enn fremur. Fylgst verði með veðurspánni í dag til þess að sjá hvert gera megi ráð fyrir að reykinn leggi í framhaldinu. Mikill eldsmatur er í húsnæðinu að sögn hans. Meðal annars plastker sem logi vel í þegar þau byrji að brenna.

„Við eigum nokkra klukkutíma eftir í þessu,“ segir Sigurjón að lokum.

mbl.is/Hari
mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert