Sótt var um þrjátíu lóðir á Bíldudal

Frá Bíldudal
Frá Bíldudal Ljósmynd/Jón Ragnar Gunnarsson

Bæjarstjóra Vesturbyggðar var í síðustu viku falið að ræða við landeiganda á Litlu-Eyri við Bíldudal vegna umsóknar um þrjátíu lóðir undir ein- og tvíbýlishús á Bíldudal. Þess var óskað að landeigendur tilnefndu fulltrúa til slíkra viðræðna.

Í þéttbýli á Bíldudal er ekki pláss fyrir slíkar byggingar að sögn Rebekku Hilmarsdóttur, bæjarstjóra Vesturbyggðar, en landið sem tekur við af þéttbýli er í eigu einkaaðila. „Við erum í vandræðum með lóðamál af því sveitarfélagið á afskaplega fáar lóðir og þær lóðir sem gæti verið gott að byggja á eru á ofanflóðasvæði af því ofanflóðavörnum er ekki lokið á Bíldudal,“ segir Rebekka. Óformlegar þreifingar milli sveitarfélagsins og landeigenda hafa verið uppi um nokkurra ára skeið, en nú vill sveitarfélagið færa þær á formlegt stig.

Mikil eftirspurn er eftir húsnæði á Bíldudal, ekki síst með hliðsjón af ört vaxandi atvinnustarfsemi. Vandinn hefur verið leystur með íbúðarhúsnæði á Patreksfirði og Tálknafirði. „Þeir sem búa þar þurfa að fara yfir tvo fjallvegi á morgnana og það eru ekki allir tilbúnir að leggja slíkt á sig yfir vetrartímann,“ segir Rebekka í Morgunblaðinu í dag.

Þremur lóðum var úthlutað í síðustu viku undir íbúðarhúsnæði á Bíldudal, en bæjarstjórn á eftir að samþykkja þá úthlutun að sögn Rebekku. „Þar verða 10-12 55 fermetra íbúðir í fjölbýlishúsi á tveimur hæðum. Síðan eru það lóðir til byggingar á þriggja íbúða raðhúsum,“ segir hún og býst við þessar íbúðir fyllist fljótt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert