Annie önnur eftir fyrsta daginn

Frá keppninni í dag.
Frá keppninni í dag. Ljósmynd/Ingi Torfi Sverrisson

200 keppendur féllu úr leik á fyrsta keppnisdegi heimsleikanna í crossfit, sem fram fara í Madison í Wisconsin. Enginn þeirra var þó íslenskur, sem betur fer. Annie Mist Þórisdóttir er í öðru sæti eftir fyrsta daginn og þau Björgvin Karl Guðmundsson og Katrín Tanja Davíðsdóttir eru bæði í 12. sæti.

Önnur æfing dagsins hét því góða og lýsandi nafni „annar niðurskurður“ en 25 keppendur þurftu að hætta keppni eftir hana. 50 karlar og 50 konur standa eftir og etja kappi um þá nafnbót að vera hraustasta fólk í heimi.

Æfing tvö fólst í 800 metra róðri, 66 ketilbjöllulyftum og 40 metra langri handstöðugöngu og fengu keppendurnir tíu mínútur til þess að klára þrautina.

Fraser gríðarlega öflugur

Mat Fraser frá Bandaríkjunum var fyrstur karla í annarri þrautinni, rétt eins og þeirri fyrstu, og segir tíðindamaður mbl.is í Madison, Þröstur Ólason, að svo virðist sem hann sé „of stór munnbiti fyrir hina keppendurna“ eins og hann hefur verið undanfarin ár.

Annie Mist lenti í fimmta sæti í annarri þrautinni og er sem áður segir komin upp í annað sætið eftir tvær greinar. Katrín Tanja var tíunda í annarri þrautinni og Björgvin Karl þrítugasti í karlaflokknum.

Svona er staða íslensku keppendanna eftir fyrsta daginn:

Björgvin Karl Guðmundsson – 12. sæti
Annie Mist Þórisdóttir – 2. sæti
Katrín Tanja Davíðsdóttir – 12. sæti
Þuríður Erla Helgadóttir – 16. sæti
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir – 26. sæti
Oddrún Eik Gylfadóttir – 32. sæti

mbl.is