Björgvin fjórði og Annie sjötta

Íslensku keppendurnir komust allir í gegnum fyrstu þrautina, en þar …
Íslensku keppendurnir komust allir í gegnum fyrstu þrautina, en þar féll helmingur keppenda úr leik. Ljósmynd/Ingi Torfi Sverrisson

Fyrstu æfingu heimsleikanna í crossfit er lokið í hitanum í Madison í Wisconsin í Bandaríkjunum, en æfingin samanstóð af hlaupum, kaðlaklifri án handa og snörun. 

Það var fátt sem kom á óvart í karlaflokki en þar vann heimsmeistarinn Mat Fraser með yfirburðum en Björgvin Karl Guðmundsson leit mjög vel út og endaði í 4. sæti. Góð byrjun hjá Stokkseyringnum.

Annar crossfit-kappi með íslenska tengingu, Frederik Aegidius, unnusti Annie Mistar, hefur því miður dregið sig úr keppni vegna bakmeiðsla.

Allar íslensku stelpurnar öruggar áfram

Í kvennaflokki var heldur ekki margt sem kom á óvart. Heimsmeistarinn Tia Toomey vann með miklum yfirburðum. Íslensku stelpurnar gerðu sitt og eru öruggar áfram í næstu umferð.

Annie Mist er sjötta, Oddrún Eik er þrettánda, Þuríður Erla fjórtánda, Katrín Tanja í 21. sæti og Ragnheiður Sara í 40. sæti.

Keppendum var fækkað eftir þessa fyrstu grein heimsleikanna og einungis 75 karlar og 75 konur fá að þreyta þær greinar sem eftir eru.

Allir íslensku keppendurnir sluppu þannig við niðurskurðarhnífinn, en Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir var í smá veseni, samkvæmt Inga Torfa Sverrissyni, tíðindamanni mbl.is í Madison.

Hitinn er gríðarlegur í Madison og það varla hreyfir vind.
Hitinn er gríðarlegur í Madison og það varla hreyfir vind. Ljósmynd/Ingi Torfi Sverisson

„Það kom nokkuð á óvart að Ragnheiður Sara lenti í erfiðleikum í kaðlinum og mistókst í nokkur skipti að komast upp og ljóst að hún þarf að gera vel í næstu æfingu sem er nú síðar í dag,“ segir Ingi Torfi við blaðamann mbl.is.

Hann segir mikinn fjölda fólks á svæðinu og stemninguna afar góða blanka logni, glampandi sól og 33 stiga hiti, sem eflaust er skemmtilegri fyrir áhorfendur en keppendur.

Íslensku stelpurnar virðast vera í nokkru uppáhaldi hjá áhorfendum en þeim er mikið fagnað,“ segir Ingi Torfi.

mbl.is