Bruninn hafði áhrif á úrvalið

Úr fiskverslun Hafsins.
Úr fiskverslun Hafsins. Mbl.is/Styrmir Kári

Nokkurt tjón varð hjá Hafinu fiskverslun vegna eldsvoðans í Fornubúðum í Hafnarfirði í gærmorgun. Komust afurðir fyrirtækisins hvorki til verslana né viðskiptavina, en eigandi segir fyrirtækið hafa sloppið vel miðað við aðstæður. 

„Við komumst ekki inn á svæðið okkar út af eldinum. En það er allt komið í lag hjá okkur í dag. Það var eitthvað lítið af fiski hjá okkur í gær því við gátum bara ekki afhent hann. Það var lokuð vinnslan hjá okkur því við komumst bara ekki inn að vinna,“ segir Halldór Heiðar Halldórsson, einn eigenda Hafsins. 

Fiskvinnsla Hafsins er staðsett við hliðina á því húsnæði sem brann svo gott sem til kaldra kola í gærmorgun. 

„Svæðið var náttúrulega bara lokað og þá kemst okkar fólk ekkert til vinnu. Þannig að við komumst ekkert í húsið fyrr en eftir hádegi og gátum þá tékkað á stöðunni. Það slapp allt mjög vel,“ segir Halldór. 

Nýttu vörur frá deginum áður

Halldór segir vöruúrvalið í verslunum Hafsins hafa verið afar takmarkað í gær. 

„Það var eitthvað frá því deginum áður sem var búið að fara með í búðirnar. Bara eitthvað sem var til.“

Halldór segir tjón Hafsins vera lítið miðað við aðstæður. 

„Það var aðallega bara vinnustöðvun og svo var mikið hráefni sem átti að fara á kúnna um alla borg sem fór ekkert og var bara strand. Tjónið var alltaf eitthvað, það er alveg á hreinu. En miðað við aðstæður þá kvartar maður ekki.

Það kom einhver reykur og mikil lykt og það var eitthvert hráefni sem skemmdist. En ekkert stórkostlegt. Dagurinn í gær fór bara í að hreinsa allt saman. Það var hráefni komið í hús þegar eldurinn kviknaði. Megnið sem betur fer kom ekki fyrr en um 4 eða 5 um nóttina og þá var búið að loka öllu þannig að það fór bara í kæli.“

Halldór segir starfsemina vera með hefðbundnu sniði í dag. 

„Nú er allt orðið eins og það var. Mér sýnist þau vera að standa sig mjög vel við að hreinsa allt hérna úti. Þetta er allt til fyrirmyndar hjá þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert