„Búið að vera erfið fæðing“

Inga Sæland virðir niðurstöðu siðanefndar en telur að endurskoða þurfi …
Inga Sæland virðir niðurstöðu siðanefndar en telur að endurskoða þurfi framkvæmd siðareglnanna með það fyrir augum að hafa hana hafna yfir allan vafa. mbl.is/​Hari

„Þetta er búið að vera erfið fæðing. Við höfum beðið lengi,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í samtali við mbl.is. Í dag staðfesti forsætisnefnd niðurstöðu siðanefndar, um að Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, þingmenn Miðflokksins, hefðu brotið siðareglur Alþingis í umræðum sínum á Klaustri í nóvember. Inga vill breyta framkvæmd siðareglnanna.

Á Klaustri var Inga meðal annars kölluð „húrrandi klikkuð kunta“. „Við fengum ansi mörg að finna til tevatnsins þarna en ég er þar aukaatriði þó að mér hafi þótt miður að horfast í augu við þessa framkomu,“ segir Inga.

Hún virðir niðurstöðu siðanefndar. „Ég sé að hún ákvað að vinna út frá því hvað var sagt á staðnum. Það voru þessi rosalega ljótu orð sem höfð voru bæði um konur, fatlað fólk og samstarfsfólk,“ segir hún. 

Niðurstaða siðanefndar, og staðfesting forsætisnefndar á henni, hefur engar formlegar afleiðingar, heldur á svona niðurstaða að verka sem áfellisdómur yfir þeim sem í hlut eiga. Þeir sem voru teknir fyrir í þessari hafa talað um ferlið sem pólitíska herferð gegn sér. Áður en sérstök forsætisnefnd, skipuð aðeins Steinunni Þóru Árnadóttur, þingmanni VG, og Haraldi Benediktssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, tók til starfa, höfðu átta lýst sig vanhæfa til að fjalla um málið sem nefndarmenn í forsætisnefnd. 

Í kvöldfréttum RÚV sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, að niðurstaða nefndarinnar hefði enga þýðingu nema þá, að hún varpaði ljósi á það „hversu fáránleg vegferð þetta hefur verið“. Hann hafi verið meginskotmarkið í „þessari aðgerð“.

Það hefur sem sagt verið umdeilt að forsætisnefnd, sem skipuð er kjörnum fulltrúum einvörðungu, þurfi að staðfesta niðurstöður siðanefndar. Því verði niðurstaðan óhjákvæmilega pólitísk og því ekki hafin yfir vafa. 

Inga vill gera breytingar þar á. „Ég vil hafa þessa siðanefnd, það er ekki málið. En hún þarf að vera hafin yfir allan vafa. Það er óþægilegt að þetta sé svona pólitískt. Best er að sleppa milliliðum og gefa kost á því að vísa málum beint til siðanefndar, án milligöngu forsætisnefndar,“ segir Inga. 

Hún talar um að forsætisnefnd komi saman á stórum starfsfundi í ágúst, þar sem hún er áheyrnarfulltrúi þótt ekki hafi hún atkvæðisrétt. Þar stendur til að skoða þingsköpin, eins og hefur verið rætt eftir langt málþóf Miðflokksmanna í vor, en einnig stendur til að ræða framkvæmd siðareglnanna. Þar vonast Inga til þess að hægt verði að knýja fram breytingar.

mbl.is