Hjólaði beint fyrir bíl á miklum hraða

Sjá má hjólreiðamanninn koma á mikilli ferð af gangstéttinni og …
Sjá má hjólreiðamanninn koma á mikilli ferð af gangstéttinni og hálfpartinn stökkva fyrir bílinn. Ljósmynd/Skjáskot

Ógnvænlegt myndband sýnir hjólreiðamann koma á mikilli ferð inn á Urðarbraut í Kópavogi og verða fyrir bíl. Lögregla segir meiðsli mannsins vera minni háttar en maðurinn var án reiðhjólahjálms.

„Við höfum þetta mál til rannsóknar og höfum séð þetta myndband. Þarna var um ógætilegan akstur að ræða, hann kemur bara í gegnum runna og inn á götuna og upp á bílinn,“ segir Heimir Ríkarðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni í Kópavogi. 

„Þetta er svakalegt myndband. Fyrst þegar ég sá þetta hrökk ég í kút. Við höfum farið og skoðað vettvang og hann sem sagt kemur á fleygiferð niður brekku og nær þannig hraða að hann ætlar bara að stökkva inn á götuna. Hann taldi að það væri enginn bíll,“ segir Heimir, en slysið átti sér stað í síðustu viku. 

Heimir segir hjólreiðamanninn hafa farið yfir Rútstúnið og svo á miklum hraða á milli tveggja runna inn á Urðarbrautina. 

„Hjólið og bíllinn skemmdust og hann var ekki með reiðhjólahjálm og kvartaði yfir eymslum,“ segir Heimir. Var maðurinn fluttur á slysadeild með minni háttar áverka. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert