Isavia undir hæl ríkisins

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia.
Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia. Ljósmynd/Isavia

Isavia stjórnar því ekki hvernig fé til flugvalla landsins er forgangsraðað, þótt fyrirtækið ráðleggi stjórnvöldum vitanlega í þeim efnum. Þetta segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, í samtali við mbl.is. Einu teljandi eignir Isavia eru á Keflavíkurflugvelli, sem er sjálfbær, en aðrir flugvellir landsins eru í beinni ríkiseigu og rekur Isavia þá á þjónustusamningi.

Blindflugsbúnaður pólitísk ákvörðun

Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélagsins, gagnrýndi í samtali við mbl.is í gær, að fé og gæðum flugvalla væri um of forgangsraðað í þágu millilandaflugs, áætlunar- og einkaflugs. Nefndi hann í því skyni svokallaðan ILS-blindflugsbúnað sem koma á upp á Akureyrarvelli til þess að laða að erlend flugfélög í millilandaflugi.

Búnaðurinn, sem er í uppsetningu, kostar um 200 milljónir króna og sagði Matthías skjóta skökku við að honum væri komið upp á sama tíma og litlum lendingarstöðum á landsbyggðinni er lokað vegna viðhaldsþarfar, en kostnaðurinn við uppihald slíks staðar hleypur á hundruðum þúsunda króna.

Frá Akureyrarflugvelli, þar sem koma á upp 200 milljóna króna …
Frá Akureyrarflugvelli, þar sem koma á upp 200 milljóna króna blindflugsbúnaði sem gerir vélum kleift að lenda þótt þoka sé nær jörðu en annars. Hann á einkum að nýtast í millilandaflugi. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Sveinbjörn, forstjóri Isavia, segir ákvörðun um uppsetningu blindflugsbúnaðarins vera dæmi um pólitíska ákvörðun, sem margir bendli að ósekju við Isavia. „Það hefði verið æðislegt að fá þennan pening inn í innanlandskerfið,“ segir hann. Samkvæmt heimildum mbl.is er það mál manna í flugheiminum að flugfélög í innanlandsflugi hafi ekki kallað eftir honum, enda eigi hann fyrst og síðast að laða að erlend fyrirtæki sem hyggi á þotuflug til höfuðstaðar Norðurlands.

Millilandaflug verið í forgangi hjá framkvæmdavaldinu

„Lendingarstaðir eru gríðarlega mikilvægir því þarna stíga flugmenn framtíðar sín fyrstu skref, en ef fjármagnið er takmarkað eins og verið hefur, þá höfum við gert ráð fyrir að því sé frekar veitt til áætlunarflugsins,“ segir Sveinbjörn.

Mikilvægt er að huga að innanlandsfluginu öllu, segir Sveinbjörn.
Mikilvægt er að huga að innanlandsfluginu öllu, segir Sveinbjörn. mbl.is/RAX

Honum finnist mikilvægt að missa ekki sjónar á innanlandsfluginu og lítur á það sem eina heild: kennsluflug, æfingaflug og áætlunarflug innanlands. Uppbygging innanlandsvalla sé í flugmálaáætlun, en hún er á forræði samgönguráðuneytisins. „Flugvellir eru hluti almenningssamgangnakerfisins og við þurfum að meðhöndla þá sem slíka. Að undanförnu hefur dregið töluvert úr fjármagni í innanlandsflug og því þarf að snúa við,“ segir Sveinbjörn.

Drög að grænbók um stefnu stjórnvalda í flugmálum liggja fyrir í samráðsgátt stjórnvalda, en þau voru unnin í samvinnu ráðuneytis við alla þá sem að flugi koma, meðal annars Isavia, flugfélög, flugklúbba og Flugmálafélagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert