Kjötið fer í búðir á fullum tolli

Lambahryggir voru pantaðir frá útlöndum í trú um að það …
Lambahryggir voru pantaðir frá útlöndum í trú um að það yrði ekki settur á það tollur þegar það kæmi til landsins. Sú staða er breytt en kjötið er enn á leiðinni til landsins. mbl.is/Árni Torfason

Eftir að ráðgjafanefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara tilkynnti að hún hygðist leggja það til við ráðherra að hann opnaði fyrir tollkvóta á innfluttum lambahryggjum, fóru innflytjendur og smásöluaðilar að flytja inn lambahryggi í þeirri trú að tollarnir á þeim yrðu felldir niður.

Svo var tilkynnt nú síðdegis að þessir tollar yrðu ekki felldir niður. En kjötið er samt á leiðinni, og kemur sennilega í byrjun næstu viku.

Pantanir voru gerðar á í minnsta lagi 50 tonnum af lambahryggjum, að sögn Andrésar Magnússonar, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu. Þessir hryggir verða þrátt fyrir að verði gert með tollum fluttir inn, eftir því sem hann fær best séð.

Andrés Magnússon er framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.
Andrés Magnússon er framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu. mbl.is/Ómar

„Ég sé ekki annað en að þetta fari bara í gegn, en ekki á lækkuðum eða niðurfelldum tollum. Þá mun þetta skila sér þannig inn í verslanir, á fullum tollum,“ segir hann. 

Samkvæmt drögunum frá ráðuneytinu að opnuðum tollkvótum átti verðtollurinn að vera 0% og magntollurinn 172 kr/kg. Í staðinn, þar sem ekki verður af opnun kvótanna, verður verðtollur 30% og magntollurinn 382 kr/kg. Á fullum tollum verður lambakjötið því töluvert dýrara.

Andrés segir að ákvörðun nefndarinnar um að draga meðmæli sín um opnun kvóta til baka sé söguleg. „Það hefur aldrei gerst í sögu þessarar nefndar að ráðherra samþykki ekki það sem hún mælir með,“ segir hann.

„Lagasniðganga“ í gangi hjá afurðastöðvum

„Það kemur okkur algerlega í opna skjöldu. Þetta sýnir betur en annað hversu brotakennt þetta kerfi er,“ segir hann. 

Andrés fullyrðir að afurðastöðvarnar séu að fremja „hreina og beina lagasniðgöngu.“ Þær séu að selja hver annarri til þess að gefa þá mynd að birgðastaðan sé næg, þegar hún er það ekki. „Þetta er orðinn það mikill skrípaleikur að það er útilokað annað en að samkeppniseftirlitið skoði hvaða viðskiptaaðferðum afurðastöðvarnar eru að beita,“ segir hann. Að auki segir hann svona atburðarás fletta ofan af því hve kerfið í kringum markaðsverð og tollvernd landbúnaðarvara er komið „algerlega að fótum fram.“

Magnús segir mjög slæmt fyrir innflytjendur og smásöluaðila að fá þau skilaboð að tollur verði felldur niður á innfluttum lambahryggjum og fá svo skyndilega þveröfug skilaboð, þegar pantanir hafa þegar verið gerðar. „Nefndin sinnti lögboðinni rannsóknarskyldu og komst að því að skilyrðin væru til staðar. Svo tilkynnti hún það. Svo er það sjálfstætt rannsóknarefni hvernig það gerist, eftir að fresturinn til að senda inn upplýsingar til nefndarinnar, að hún dragi ákvörðun sína til baka,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina