Áfram í haldi vegna vopnaðs ráns

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hanna

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að karlmaður á þrítugsaldri skuli sæta gæsluvarðhaldi til 23. ágúst vegna vopnaðs ráns.

Fram kom í greinargerð sækjanda í héraðsdómi að lögreglu hafi borist tilkynning um vopnað rán í Reykjavík 25. júlí.

Brotaþoli sagðist hafa mælt sér mót við aðila sem ætlaði að kaupa af honum verðmætt úr. Hafi kaupandinn sagt honum að þeir kæmu tveir. Þegar brotaþoli kom þangað hafi ætlaður kaupandi, kærði, sest inn í bifreið hans vopnaður skammbyssu sem hann hótaði honum með og krafðist þess að hann afhenti sér úrið, sem brotaþoli hafi gert og síðan hafi kærði farið á brott með úrið.

Brotaþoli taldi að um raunverulega byssu væri að ræða en við leit lögreglu fannst byssan, sem er eftirlíking af svartri Glock-skammbyssu.

Tekin var skýrsla af kærða og játaði hann að hafa verið á vettvangi, haft byssu meðferðis og tekið úrið en neitaði að hafa ógnað brotaþola með byssunni til að komast yfir úrið.  

Að mati lögreglu er kominn fram sterkur rökstuddur grunur um að kærði hafi framið vopnað rán. Komst hann yfir verðmætt úr af gerðinni Breitling, sem samkvæmt brotaþola er um einnar milljónar króna virði.

Kærði hlaut í maí síðastliðnum átta mánaða skilorðsbundinni dóm fyrir auðgunarbrot og fleira. Nokkur önnur mál tengd honum bíða einni afgreiðslu hjá lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert