Taka eitt skref í einu og byrja á íssölu

Rekstaraðilar Efstadals hafa nú hafið sölu á eigin ís að …
Rekstaraðilar Efstadals hafa nú hafið sölu á eigin ís að nýju. Mbl.is/Hari

Eigandi í Efstadal segist ánægður með að starfsemi sé komin í samt horf á ný eftir að 9 börn á aldrinum 1 til 12 ára sýktust af E. coli bakteríunni á bænum. Segir hann eigendur staðarins ætla að læra af reynslunni til að koma í veg fyrir álíka smit aftur. 

„Okkur líður bara vel með það að geta haldið áfram með okkar hefðbundnu starfsemi. Íssalan hefur verið stopp núna í tvær vikur en við höfum verið með veitingastaðinn opinn. Núna erum við smátt og smátt að taka inn okkar framleiðslu í ísnum og koma honum í sölu,“ segir Björgvin Jóhannesson, einn eiganda í Efstadal. 

Fram kom í til­kynn­ingu frá sótt­varn­ar­lækni í fyrradag að eng­in ný til­felli af E. coli hefðu greinst síðan 19. júlí og að eng­inn hafi greinst í kjölfar heimsóknar í Efsta­dal II eft­ir 18. júlí, þegar viðamikl­ar aðgerðir sem miðuðu að því að stöðva út­breiðsluna hófust.

Björgvin Jóhannesson.
Björgvin Jóhannesson. Mbl.is/Hari

„Ástandið síðasta mánuðinn er búið að vera mjög erfitt og sérstakt, eitthvað sem við höfum í rauninni ekki upplifað áður. Við erum bara taka lítil skref í einu og gerum þetta hægt og rólega. Við erum ekkert að flýta okkur,“ segir Björgvin, en E. coli smitin voru eins og gefur að skilja mikið áfall fyrir rekstur starfsseminnar. 

Alltaf ákveðin hætta þar sem dýr eru

Björgvin segir rekstraraðila hafa gert það sem hægt sé að gera til að koma í veg fyrir að E. coli smit komi aftur upp í Efstadal. 

„Þar sem að smitið greinist í kálfastíunni, við lokuðum á það þannig að það er engin snerting á milli manna og dýra núna. Við þrifum allt hátt og lágt og tókum ísbúðina í smá endurskipulagningu og breyttum því rými. 

„Þessar aðgerðir, þrif og hreinsun og uppsetning á hreinsistöðvum utanhúss og annað slíkt, eru búnar að fara fram síðustu tvær vikurnar. Núna er heilbrigðiseftirlitið bara búið að gefa grænt ljós á opnun svo að starfssemi getur haldið áfram og þá er bara opið í hamborgara og ís,“ segir Björgvin.

„Við ætlum bara að læra af þessu og gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir að svona geti gerst. Þetta er náttúrulega ákveðin áhætta þar sem dýr eru en við erum búin að loka á snertingu við dýrin svo það ætti að vera búið að girða fyrir það. Þetta hjálpar okkur bara í skipulagningu til framtíðar og hvernig við ætlum að vinna áfram.“

mbl.is