Stefnt til að halda máli leyndu

Már Guðmundsson, fráfarandi seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson, fráfarandi seðlabankastjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stefna Seðlabanka Íslands á hendur Ara Brynjólfssyni, blaðamanni á Fréttablaðinu, var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Bankinn stefnir blaðamanni til að freista þess að fella úr gildi úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál þess efnis að bankanum beri að veita Ara umbeðnar upplýsingar um námsstyrk til Ingibjargar Guðbjartsdóttur, framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits bankans.

Í nóvember í fyrra sendi Ari fyrirspurn á bankann þar sem óskað var eftir upplýsingum um tilhögun námsleyfis Ingibjargar árin 2016-2017 er hún sótti MPA-nám í Bandaríkjunum, en að námi loknu sneri Ingibjörg ekki aftur til starfa hjá bankanum.

Seðlabankinn neitaði að svara fyrirspurninni og kærði Ari bankann því til upplýsinganefndar um upplýsingamál, sem úrskurðaði honum í vil í síðasta mánuði. „Bankinn bar fyrir sig að málefni bankans sjálfs eigi ekki erindi við almenning, sem heldur náttúrulega ekki vatni,“ segir Ari í samtali við mbl.is.

Starfslok dulbúin sem námssamningur

Hann segist í kjölfarið hafa ítrekað fyrirspurnina við bankann enda nú ljóst að honum beri að afhenda gögnin. „Ég tek enga afstöðu til þess hvort bankinn hafi mátt gera starfslokasamning dulbúinn sem námssamning,“ segir Ari og bætir við að blaðamenn vilji einungis fá upplýsingar um innihald samningsins: hvort og þá hve hár námsstyrkur hafi verið gerður og eins hvort Ingibjörg hafi þegið laun meðan á námi stóð.

Þessi atriði fengust síðan bæði staðfest í greinargerð bankans þegar málið var til umfjöllunar úrskurðanefndarinnar, en engar fjárhæðir liggja þó fyrir. „Ég er algjörlega ósammála Seðlabankanum að samningur af þessu tagi eigi ekki erindi við almenning, og það er ekki hnýsni af minni hálfu.“

Ari og Aðalheiður Ámundadóttir, blaðamenn Fréttablaðsins, hafa leitast eftir upplýsingum …
Ari og Aðalheiður Ámundadóttir, blaðamenn Fréttablaðsins, hafa leitast eftir upplýsingum frá Seðlabankanum um tilhögun námsleyfis sem Ingibjörg Guðbjartsdóttir, framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits bankans, fór í veturinn 2016-17. Hún lét af störfum eftir að námi lauk. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meðal þeirra sem hafa tekið undir málflutning Ara er Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, sem segir í færslu á Facebook að það sé „algjörlega galið“ að Seðlabankinn stefni blaðamanni fyrir dóm fyrir það „eitt að vinna vinnuna sína og biðja um upplýsingar“. Kolbeinn er sjálfur fyrrverandi blaðamaður og vann á Fréttablaðinu um tíma.

Þá hefur Blaðamannafélag Íslands fordæmt vinnubrögð Seðlabankans og sagt að öllum megi vera ljóst að umræddar upplýsingar varði almenning.

Kjör heyri ekki undir upplýsingaskyldu

Stefnan hefur þau áhrif að réttaráhrifum er frestað um sinn, þ.e. bankinn þarf ekki að afhenda upplýsingarnar strax. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í hádeginu í dag.

Í samtali við mbl.is segir Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri Seðlabankans, að með því að samþykkja frestun réttaráhrifa sé upplýsinganefnd í raun að fallast á það sjónarmið bankans að rétt sé að vísa málinu til dómstóla.

Þó verður að hafa í huga að áfrýjun til dómstóla hefði vitanlega enga þýðingu ef bankinn yrði að gefa þessar upplýsingar upp áður en að því kemur. Aðspurður hví bankanum sé svo í mun að halda málinu leyndu, vísar Stefán í rökstuðning bankans sem finna má í stefnunni en þar er því meðal annars haldið fram að launakjör starfsmanna falli ekki undir upplýsingalög og því til viðbótar vísað í þagnarskylduákvæði laga um Seðlabankann. Von er á yfirlýsingu frá bankanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert