Sýna að ekkert er óyfirstíganlegt

Hlaupararnir klárir í slaginn á Akureyri í morgun.
Hlaupararnir klárir í slaginn á Akureyri í morgun. mbl.is/Þorgeir

Hópur slökkviliðs- og björgunarsveitarmanna hóf í morgun 340 kílómetra hlaup um hálendi Íslands til stuðnings Hollvinasamtökum Sjúkrahússins á Akureyri. „Mér sýnist þetta stefna í að verða hrikalega skemmtileg helgi. Bílaflotinn er að skríða saman og það er rosalega góður andi í hópnum,“ segir einn af hlaupurunum, Hörður Halldórsson.

Hlaupið fer fram um miðja verslunarmannahelgi en útilega kemur ekki til greina hjá Herði og félögum í þetta sinn. „Þetta er hálfgerð útilega, maður svitnar bara aðeins meira. Þetta gefur kannski verslunarmannahelginni góðan tilgang.“

mbl.is/Þorgeir

Sex menn munu hlaupa eins konar boðhlaup yfir hálendið, 5 til 20 kílómetra í einu. Bílstjórarnir verða fjórir. Hlaupið hófst á Akureyri og lýkur á Selfossi á sunnudaginn.

Verkefnið kallast Gengið af göflunum. Fyrsti leggurinn verður 87 kílómetra langur þar sem hlaupið verður að Laugarfelli, þar sem stoppað verður og tánum dýft ofan í sundlaugina. Alls verða leggirnir fimm talsins og er sá fjórði langlengstur, eða 109 kílómetrar frá Versölum í Árnes.

mbl.is/Þorgeir

Safnað verður fyrir hitakassa á barnadeild Sjúkrahússins á Akureyri. Í hitteðfyrra söfnuðust 1,2 milljónir króna fyrir ferðafóstru sem er gjörgæslueining fyrir nýbura og fyrirbura. Þá gekk hópurinn m.a. Eyjafjarðarhringinn, sem er 30 kílómetrar, í fullum slökkviliðsskrúða en klæðnaðurinn verður léttari í þetta sinn. Núna er verkefnið sömuleiðis mun erfiðara en Hörður og félagar eru hvergi bangnir.

„Við erum tíu manna teymi. Þetta er góð leið til að sýna fólki að þótt þetta líti rosalega erfitt út er ekkert óyfirstíganlegt þegar maður er í góðu teymi. Þetta lærir maður mikið í björgunarsveitum og slökkviliðinu.“

Hægt verður að fylgjast með hlaupinu á Snapchat, Instagram og Facebook.

Kennitala hollvinasamtakanna er 640216-0500 og reikningsnúmer 0565-26-10321.

mbl.is/Þorgeir
mbl.is/Þorgeir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert