Umferð gengið vel í dag

Umferð á Suðurlandsvegi skammt frá Litlu kaffistofunni nú á fimmta …
Umferð á Suðurlandsvegi skammt frá Litlu kaffistofunni nú á fimmta tímanum. Ljósmynd/Vegagerðin

Umferð á Suðurlandi hefur gengið vel í dag að sögn Odds Árnasonar, yfirlögregluþjóns. Lögreglan hvetur fólk til þess að gefa sér tíma þegar ekið er út úr bænum og gera ráð fyrir hægari umferð en vanalega. 

„Það er mikil umferð en allt saman hefur þetta gengið stórslysalaust. Við viljum að fólk gefi sér tíma og geri ráð fyrir því að það geti orðið tafir einhverstaðar. Við Selfoss er farið að lengjast í röðum og við vitum að það gerist á svona stórum umferðardögum,“ segir Oddur.

Gestir á leið á Þjóðhátíð ættu því ekki að taka neinar áhættur þegar lagt er af stað úr bænum og vera tímanlega á ferðinni. 

Ferðalangar á leið út úr bænum ættu að gefa sér …
Ferðalangar á leið út úr bænum ættu að gefa sér góðan tíma til ferðarinnar. mbl.is/Sigurður Bogi

Oddur segist ekki vita hvort að umferð sé meiri nú á föstudegi fyrir verslunarmannahelgi í samanburði við aðrar helgar í sumar. 

„Það er þung umferð alla helgar hérna,“ segir Oddur, en svo virðist sem íbúar höfuðborgarsvæðisins hafi verið duglegir að ferðast innanlands í veðurblíðunni í sumar. 

Oddur segir allt hafa gengið greiðlega það sem af er degi í dag og engin meiriháttar óhöpp orðið. 

„Það var eitt óhapp í Hveragerði þar sem hjólhýsi nuddaðist utan í rútu en það er minniháttar. Það er bara allt og sumt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert