Vanáætlun veldur hækkun á íbúðum FEB

Skóflustunga tekin að íbúðum aldraðra í Árskógum.
Skóflustunga tekin að íbúðum aldraðra í Árskógum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ófyrirséður kostnaðarauki veldur því að hækka þarf verð íbúða á vegum Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni í Árskógum í Reykjavík að því er fram kemur í bréfi sem var sent kaupendum í gær.

Ekki kemur fram í bréfinu hve mikið verð íbúðanna hækkar, en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er hækkunin um og yfir 10%, sem getur numið hundruðum milljóna, en söluverð var um 460 þúsund krónur á fermetra. Kostnaðaraukinn er rakinn til vanáætlaðs fjármagnskostnaðar vegna lengri framkvæmdatíma en upphaflega var áætlað, að því er segir í bréfinu.

Íbúðirnar eru 68 talsins í tveimur fjölbýlishúsum. Til stóð að afhenda í fyrradag, en sökum kostnaðaraukans stóðst það ekki. Samkvæmt kauptilboði stóð til að afhenda eignirnar í júní, en því var síðar frestað. Samkvæmt heimildum blaðsins höfðu sumir gert ráðstafanir vegna fyrri eigna á þeim tímapunkti og þurftu að standa við afhendingardaga. Þetta höfðu aðrir gert fyrir 30. júlí og eru nú í húsnæðisvanda.

Ræða við kaupendur

Kaupendum býðst að falla frá kaupunum, en nokkrar íbúðir voru þó afhentar í gær. Félagið hyggst funda með kaupendum, hverjum og einum. „Við erum að ræða við kaupendur íbúðanna þessa dagana. Það var byrjað á því í dag og búið er að afhenda fyrstu íbúðirnar,“ segir Sigríður Snæbjörnsdóttir, talsmaður félagsins, en búið er að ræða við ellefu kaupendur. „Níu eða tíu hafa ákveðið að taka þessu og einn til tveir eru að hugsa málið,“ segir Sigríður.

Hækkunin nemur mjög háum fjárhæðum að sögn Sigríðar, en „heildarpakkinn“ hljóðar upp á 3,8 milljarða króna að hennar sögn. Kostnaðarauki á hverja íbúð er breytilegur eftir stærð þeirra og gerð. Hún hafði ekki upplýsingar um hver verðmunurinn væri með hliðsjón af upphaflegu verði.

Félag eldri borgara bauð félagsmönnum íbúðirnar á fermetraverði sem miðast við kostnaðarverð. „Við leggjum ofuráherslu á að íbúðirnar eru seldar á kostnaðarverði eins og kom fram í kaupsamningum og víðar. Þær eru enn undir markaðsvirði, um 10-15%, þannig að þær eru enn á góðu verði,“ segir hún. Sigríður segir að uppröðun í viðtöl og afhending lykla fari eftir stöðu einstakra kaupenda. „Þeir voru teknir fyrst sem voru í erfiðri stöðu og t.d. búnir að losa íbúðina eða u.þ.b. að gera það og gátu ekki fengið frest á því,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert