Einn stútur og einn sviptur ökuleyfi

Flestir sem fóru frá Landeyjahöfn í dag höguðu sér með …
Flestir sem fóru frá Landeyjahöfn í dag höguðu sér með prýði. Þó ekki allir. mbl.is/Sigurður Bogi

Einn ökumaður var tekinn fyrir ölvunarakstur í morgun á leið frá Landeyjahöfn. Fimm ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur og einn af þeim var sviptur ökuréttindum á staðnum. Þetta segir Fjölnir Sæmundsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.

„Það er allt með kyrrum kjörum í Landeyjahöfn því síðasti bátur er farinn. Síðasta ferð var klukkan fimm og næsti bátur kemur til baka klukkan tvö í nótt. Við erum því ekki með neinn sérstakan viðbúnað þar núna en við verðum með mikinn viðbúnað í nótt.“

Fjölnir segir eitthvað hafa verið um að fólk hafi skilað sér til baka úr Vestmannaeyjum þó að lítið hafi verið um það.

„Umferðin í vesturátt hefur verið að aukast sem er merkilegt. Það er eins og fólk sé byrjað að fara í bæinn,“ bætir hann við.

Lögreglan á Suðurlandi er á þjóðveginum að mæla og verður það áfram svo það er eins gott fyrir ökumenn að haldi sig undir eða við hámarkshraða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert