Ofurhlaupari með Íslandstengsl

Nirbhasa Magee hleypur í Sri Chinmoy 3.100 mílna hlaupinu í …
Nirbhasa Magee hleypur í Sri Chinmoy 3.100 mílna hlaupinu í New York. Hann kann því vel að hlaupa á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

„Mér líður betur í dag, í gær var ég dauðþreyttur,“ segir Nirbhasa Magee, sem lauk í gær við að taka þátt í lengsta götuhlaupi í heimi. Nirbhasa, er írskur en hefur verið búsettur í Reykjavík síðustu 6 árin og talar góða íslensku.  Síðastliðna 49 daga hefur hann verið meðal þátttakenda í Sri Chinmoy 3.100 mílna hlaupinu í New York.

Hlaupararnir fá 52 daga til að ljúka þessari 4.989 km vegalengd, en New York Times hefur lýst hlaupinu sem  „Mount Everest ofurmaraþona“ og einungis hlauparar með mikla reynslu og getu í hlaupum sem taka marga daga fá þátttökurétt. Átta hlauparar tóku þátt þetta árið, sjö karlar og ein kona, og hefur helmingur þeirra nú lokið keppni.

Nirbhasa lauk hlaupinu á 48 dögum, níu klukkustundum, fjórum mínútum og 57 sekúndum og lenti í öðru sæti. Þetta er í þriðja skipti sem hann tekur þátt og hljóp hann að meðaltali um 102 km dag hvern í hlaupinu.

„Ég hljóp fyrst 2015, svo 2017 og svo núna,“ segir Nirbhasa, sem bætti hann tíma sinn um sex klukkustundir frá 2017. 

Fann að ég gat hlaupið í langan tíma

Hann tók þátt í sínu fyrsta ofurmaraþoni árið 2013, er hann tók þátt í 10 daga hlaupi. „Þá fann ég að ég gat hlaupið í langan tíma —að ég hafði hæfnina til að gera það,“ segir hann. Fljótlega eftir það fór Nirbhasa að leita að næsta hlaupamarkmiði og frétti þá af lengsta götuhlaupi í heimi. „Þá setti ég mér bara það  markmið eitt að klára“ segir hann.  Nú var hann í öðru sæti.

Spurður hvort hann stefni á að taka aftur þátt eftir tvö ár hlær hann og segist ekki vera farinn að hugsa svo langt.

Nirbhasa flutti, líkt og áður sagði til Íslands fyrir sex árum síðan. „Vinur minn sem er með MND hrörnunarsjúkdóminn bað mig um að koma og aðstoða sig,“ segir hann og kveðst hafa starfað sem aðstoðarmaður vinar síns hér á landi síðan þá.

Og hann kann vel við að hlaupa á Íslandi þegar hann er ekki í vinnunni. „Það er mjög, mjög gott,“ segir Nirbhasa sem hleypur um klukkutíma á dag þegar hann er ekki að æfa fyrir ofurmaraþon. „Það er gott að hlaupa íslensku náttúrunni, svo er alls staðar götulýsing og umhverfið er rólegt.“

mbl.is
Loka