Gengið vel fyrir utan eitt alvarlegt slys

Umferð um Vesturlandsveg á Kjalarnesi er mikil og er lögreglan …
Umferð um Vesturlandsveg á Kjalarnesi er mikil og er lögreglan á höfuðborgarsvæðinu með aukið eftirlit í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lögregluyfirvöld í öllum umdæmum landsins hafa verið með aukið umferðareftirlit í dag og um helgina. Víðast hvar hefur umferðin gengið vel þó að alltaf séu einhverjir teknir fyrir of hraðan akstur eða akstur undir áhrifum. Eitt alvarlegt umferðarslys varð á Suðurlandsvegi í dag.

„Við erum með aukið eftirlit á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi og höfum verið með um helgina. Það hefur allt gengið ágætlega fyrir utan eitt umferðarslys. Einhverjir hafa þó verið kærðir fyrir of hraðan akstur,“ segir Hlynur Gíslason, varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

„Það hafa 38 verið teknir fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur sem er hefðbundin helgi í rauninni. Það er því miður orðið svo mikið,“ bætir hann við.

Einn illa gáttaður sviptur ökuleyfi

Umferð er farin að þyngjast í umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi vestra, segir varðstjóri lögreglunnar á Sauðárkrók í samtali við mbl.is

 Þar var einn maður tekinn illa áttaður og sviptur ökuleyfi eftir að hann var tekinn á óskráðu mótorhjóli í Fljótunum. Tvö óhöpp hafa orðið uppi á Kjalvegi í dag. Erlendir ferðamenn enduðu utan vegar, en ekki urðu slys á fólki.

Einn og einn ratar í radarinn

Á Suðurlandi er umferðin að sama skapi mikil og sérstaklega frá Landeyjahöfn. Í hádeginu höfðu sjö ökumenn verið teknir fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur frá því að Herjólfur hóf siglingar frá Vestmannaeyjum í nótt.

„Umferðin hér er mikil enda fer Unglingalandsmótið á Höfn hér í gegn. Við erum aðallega í hraðamælingum núna og þetta hefur verið tiltölulega rólegt þó einn og einn rati í radarinn,“ segir varðstjóri lögreglunnar á Vík í Mýrdal, í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert