Segir markmiðið vera náttúruvernd

Breski kaupsýslumaðurinn Jim Ratcliffe.
Breski kaupsýslumaðurinn Jim Ratcliffe. mbl.is/Einar Falur

Kaup breska kaupsýslumannsins Jim Ratcliffe á jörðinni Brúarlandi 2 eru hluti af langtímaáætlun um vernd íslenska laxastofnsins sem hefur að markmiði að laxveiðar á Íslandi verði þær bestu og sjálfbærustu í heiminum. Þetta segir í fréttatilkynningu frá Ratcliffe sem send hefur verið á íslenska fjölmiðla.

Fram kemur enn fremur í tilkynningunni að Ratcliffe hafi útvíkkað áætlanir sínar um fjárfestingu í staðbundnum verkefnum til verndar laxinum í helstu laxveiðiám Norðausturlands. Markmið hans sé að vernda nærliggjandi landsvæði og viðkvæmt vistkerfi svæðisins í heild. Haft er eftir Ratcliffe að ofveiði ógni stofni norðuratlantshafslaxins og laxinum fækki hvarvetna í ám.

„Norðurausturhluti Íslands er ein af fáum uppeldisstöðvum laxins sem sloppið hefur hingað til og ég vil gera hvað ég get til verndar svæðisins,“ er aukinheldur haft eftir Ratcliffe en hann hefur þegar fjárfest í landareignum í Vopnafirði. Hluti af áætlunum Ratcliffes á næstu fimm árum snýr að því að útvíkka hrygningarsvæði laxins með byggingu nýrra laxastiga í Hafralónsá, Hofsá og Miðfjarðará í Vopnafirði.

Rannsóknir á afkomu íslenska laxins

Fram kemur sömuleiðis í fréttatilkynningunni að fyrirhugað sé að sleppa miklu magni af frjóvguðum hrognum í þessar ár auk Selár. Ratcliffe vinni enn fremur að því í samstarfi við nærsamfélagið á Norðausturlandi gegn jarðeyðingu og að bættu heilsufari vistkerfis ánna með fjárfestingu í endurræktun skóga og endurheimt gróðurfars.

Til þess að hægt sé að auka lífslíkur tegundarinnar sem mest standi Ratcliffe einnig að ítarlegri langtímarannsókn á afkomu íslenska laxins í ánum og í norðanverðu Atlantshafi. Rannsóknir fari fram í samstarfi við Hafrannsóknastofnun og háskóla innan lands og utan. Haft er eftir honum að Norðausturland standi hjarta hans sífellt nær eftir því sem heimsóknum hans þangað fjölgi og hann langi til þess að gefa svæðinu til baka.

Verndaráætlunin feli í sér sér nýja fjárfestingu og standsetningu veiðiskála með aðkomu iðnaðarmanna og fyrirtækja á svæðinu. Um leið séu bændur hvattir til að halda áfram búsetu á jörðum sem keyptar hafa verið til þess að viðhalda hefðbundnum landbúnaði og jarðgæðum nærri ánum og styðja með búsetu sinni með beinum hætti við nærsamfélagið.

Kaup Ratcliffes á meirihlutaeign í jörðinni Grímsstöðum á Fjöllum, sem hann á ásamt íslenska ríkinu og smærri hluthöfum, er sögð birtingarmynd heildstæðrar nálgunar hans. Þótt svæðið sé að mestum hluta óbyggt mýrlendi sé á hálendi þess að finna helstu vatnasvið ánna á norðausturströndinni. Markmið kaupanna hafi þannig verið að vernda og viðhalda þessu umhverfi hálendisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert