Undirskriftum sjálfstæðismanna safnað

Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins.
Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/RAX

Hafin er undirskriftasöfnun á meðal flokksbundinna sjálfstæðismanna þess efnis að farið verði fram á það við miðstjórn Sjálfstæðisflokksins að fram fari atkvæðagreiðsla innan flokksins um þriðja orkupakka Evrópusambandsins.

Vísað er til skipulagsreglna Sjálfstæðisflokksins í þeim efnum þar sem kveðið er á um að miðstjórn skuli boða til slíkrar atkvæðagreiðslu óski að minnsta kosti 5 þúsund flokksbundnir sjálfstæðismenn eftir því þar sem ekki færri en 300 komi úr hverju kjördæmi.

Jón Kári Jónsson, formaður Félags sjálfstæðismanna í Hlíða- og Holtahverfi, skrifar sig fyrir undirskriftasöfnuninni en þar segir enn fremur:

„Innleiðing þriðja orkupakkans sem fyrirhuguð er af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur þegar leitt til harðra deilna innan Sjálfstæðisflokksins, enda ríkir um málið mikil og djúpstæð óeining í okkar röðum. Hér er ætlunin að safna tilskildum fjölda undirskrifta og knýja með því fram atkvæðagreiðslu um málið.“

Einnig kemur fram á vefsíðu undirskriftasöfnunarinnar undir léninu xd5000.is að farið sé fram á að spurningin sem spurt verði í mögulegri atkvæðagreiðslu verði þessi: „Vilt þú að þeim tilmælum sé beint til sameiginlegu EES-nefndarinnar að Ísland verði undanþegið innleiðingu þriðja orkupakkans?“

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, vakti athygli á því fyrr í sumar að hægt væri að fara fram á það við miðstjórn Sjálfstæðisflokksins samkvæmt skipulagsreglum hans að slík atkvæðagreiðsla færi fram.

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði við Morgunblaðið í kjölfar orða Styrmis að hann teldi ekkert tilefni til þess að slík atkvæðagreiðsla færi fram á meðal sjálfstæðismanna.

Styrmir spurði þá á móti hvort það hafi einungis verið sýndarmennska þegar heimild til slíkra atkvæðagreiðslu hafi verið sett í skipulagsreglur flokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert