Björguðu hval í Löngufjörum

Ólafur S. K. Þorvaldz og Sigurjón Jónasson við björgunarstörf í …
Ólafur S. K. Þorvaldz og Sigurjón Jónasson við björgunarstörf í gær. Skjáskot

„Við fórum í útreiðartúr og þegar við vorum á leið til baka þá kemur eitt af börnunum í hópnum hlaupandi á móti okkur og segir að það sé hvalur í fjörunni,“ segir Ólafur S. K. Þorvaldz leikari í samtali við mbl.is, en hann lenti óvænt í því við annan mann að bjarga grindhval í gær sem lent hafði í vandræðum við Löngufjörur á Snæfellsnesi.

Ólafur fór af baki og hélt niður í fjöruna á meðan Norma Valdís Hallgrímsdóttir, sem verið hafði með honum í reiðtúrnum, fór að sækja manninn sinn, Sigurjón Jónasson. „Ég fór út í sjóinn til þess að reyna að snúa honum, hann lá eiginlega á hlið og átti greinilega erfitt með að anda. Síðan förum við báðir í að ná honum á réttan kjöl og tekst að ná honum út en þá syndir hann í raun bara strax aftur inn og kemur sér á talsvert verri stað.“

Fyrir vikið hafi þeir Sigurjón vaðið aftur út í sjóinn en þurft í þetta sinn að fara utar en áður. „Honum tókst að festa sig á milli tveggja steina en við náðum að draga hann aðeins til baka og á endanum að koma honum aftur út. Við sáum að hann var eitthvað hruflaður á höfðinu og við munninn þegar við komum að honum,“ segir hann. Líklega hafi hvalurinn hruflað sig á grjótinu í fjörunni. Eftir þetta hafi hvalurinn loks komist á haf út.

„Hins vegar var hann síðan þarna fyrir utan í fleiri klukkutíma að synda í hringi. Við fórum reglulega í gær til þess að sjá hvort hann væri þarna enn. Síðast rétt upp úr klukkan tólf. Þannig að við ætluðum að fara aftur í dag og kanna hvort hann hefði hugsanlega strandað aftur,“ en hvalurinn var í fjörunni fyrir neðan sumarbústað sem Ólafur, Sigurjón, Norma og Ragnhildur Rós Guðmundsdóttir, eiginkona Ólafs, ásamt börnum dvelja í.

Skammt er síðan hræ fjölda grindhvala fundust í Löngufjörum en það var hins vegar talsvert austar en staðurinn þar sem umræddur hvalur átti í erfiðleikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert