Fékk lykla ekki afhenta í dag

Íbúðir FEB við Árskóga eru 68 talsins.
Íbúðir FEB við Árskóga eru 68 talsins. mbl.is/Árni Sæberg

„Við gáfum þeim frest til dagsins í dag til að afhenda lyklana og ég var boðaður á fund með lögmanni félagsins og stjórnarmanni,“ segir Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður eins kaupanda íbúðar í Árskógum, sem Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni hefur reist.

Fundinum lauk nú um klukkan þrjú, en þar fengust lyklar að íbúðinni ekki afhentir að hans sögn. Sigurður Kári segir næstu skref að ákveða hvort leitað verði til dómstóla með málið og aðfarar beiðst.

Íbúðirnar sem um ræðir eru 68 talsins, en meirihluti íbúa hefur ekki fengið lykla að íbúðunum afhenta. Kaupendum er boðið að greiða hærra verð en kveðið var á um í kaupsamningi eða falla frá kaupunum. FEB segir vanáætlun fjármagnskostnaðar vegna framlengingar verktíma valda kostnaðaraukanum. Í tilkynningu frá FEB í gærkvöldi kom fram að 17 hefðu samþykkt að greiða hærra verð og að félagið hefði alls rætt málin við 23 kaupendur. Fjórir tækju sér tíma til að hugsa málið og tveir lögmenn hefðu gert FEB ljóst að þeir íhuguðu að leita með málið til dómstóla. 

MótX, verktakinn sem reisti tvö fjölbýlishús þar sem íbúðirnar 68 eru, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að ekki væri um kostnaðarauka að ræða, heldur hefði frá verðmæti íbúðanna frá upphafi verið áætlað of lágt.

Réttarstaða félagsins sé engin

„Mér finnst mjög líklegt að það verði gerð krafa fyrir héraðsdómi um að íbúðin verði afhent með aðfararbeiðni með kröfu um innsetningu eða beinni aðfarargerð. Það er viðbúið og ég held að fleiri séu að hugsa það sama,“ segir Sigurður Kári sem kveðst munu leita allra leiða sem lög og réttur heimili til þess að íbúðin verði afhent.

Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður eins kaupanda íbúðar FEB við Árskóga …
Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður eins kaupanda íbúðar FEB við Árskóga í Reykjavík. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„78. gr. laga um aðför er skýr um þetta og heimilar að menn grípi til aðgerða við þessar aðstæður. Það er í sjálfu sér enginn ágreiningur og það liggur fyrir yfirlýsing frá ráðgjafa félagsins [...] um að það sé ljóst að réttarstaða félagsins sé engin. Það er enginn ágreiningur og ég veit ekki hvaða varnir félagið ætti að hafa ef krafa verður gerð fyrir dómi,“ segir hann.

Spurður hver tímaramminn verði hvað varðar málsmeðferð og afhendingu verði aðfarargerð samþykkt, segir Sigurður Kári að það sé undir dómara komið. „Ég get ekki sagt til um það, en í mínum huga er slíkur málarekstur einfaldur. Það liggur fyrir yfirlýsing frá félaginu um að það eigi ekki rétt til frekari greiðslna, kaupsamningur liggur fyrir og greiðslur hafa farið fram,“ segir Sigurður Kári.

mbl.is