Sniglarnir í rafmagnaða hringferð

Bíll og vagn merktir í bak og fyrir á meginlandinu. …
Bíll og vagn merktir í bak og fyrir á meginlandinu. Sennilega eru hjólin innan í. Ljósmynd/Aðsend

Sniglarnir, bifhjólasamtök lýðveldisins, standa fyrir hringferð um landið ásamt Orku náttúrunnar. Sex rafmagnsbifhjól eru í þessum skrifuðu orðum á leið til landsins með Norrænu og koma þau að landi á Seyðisfirði á morgun. Þá verður lagt í hann og keyrt rangsælis um þjóðveginn. 

Tvö til þrjú hjól keyra samtímis, en hin fylgja með í kerru sem dregin er áfram af Tesla Model X, flaggskipi rafbílaflotans. Stoppað verður á nokkrum stöðum á landinu, ekki síst til að hlaða hjólin í boði ON, en einnig til að sýna gripina.

Þannig verður föruneytið á Akureyri á laugardag og býður upp á kvartmílu klukkan 11 ef veður leyfir, auk þess sem hjólin verða sýnd við mótorhjólasafnið klukkan 14. Þá verður boðað til málþings við höfuðstöðvar Orkuveitunnar á mánudag þegar Sniglar renna þar í hlað. Hægt er að fylgjast með ferðalaginu á Facebook.

Sniglarnir á ferð.
Sniglarnir á ferð. Ljósmynd/Sverrir Vilhelmsson

Steinmar Gunnarsson, formaður Snigla, mun keyra eitt hjól en auk hans stýrir Kristján Gíslason einu hjóli. Kristján er ekki ókunnur því að keyra í hringi því hann lauk í fyrra hringferð um heiminn á mótorhjóli.

Steinmar segir að hugmyndin hafi kviknað fyrir tveimur árum þegar hann rakst á mann að nafni Marcel Bulthuis á rafmagnshjólakynningu í Brussel. Þeir Steinmar hittust svo aftur í Þýskalandi í fyrra og hafði Steinmar áhuga á að fá hjól lánuð til að fara um landið. Úr varð að Marcel kemur til landsins ásamt konu sinni, Ingrid, og slást þau með í för.

Rafmagnshjól raunhæfur valkostur til orkuskipta

Markmiðið með hringferðinni er, að sögn, að auka vitund almennings um möguleika á orkuskiptum í samgöngum. Orka náttúrunnar hefur komið upp hlöðum með hraðhleðslum hringinn í kringum landið og er því hægt að fara hringinn í kringum landið á rafbíl eða rafmagnsbifhjóli.

Aðspurður segir Steinmar að tankurinn taki um 12 kílówattstundir af raforku, og að á hraðhleðslustöð taki um 20 mínútur taki að fylla 85% af tanknum, en mælt er með að fylla að því marki. Drægni hjólanna er þá um 200 kílómetrar.

Kristján Gíslason við upphaf heimshringfararinnar fyrir tveimur árum.
Kristján Gíslason við upphaf heimshringfararinnar fyrir tveimur árum. Ljósmynd/Baldur Kristjánsson
mbl.is

Bloggað um fréttina