Þrjú kynferðisbrot tilkynnt á þjóðhátíð

Lögreglan í Vestmannaeyjum telur að um fimmtán þúsund manns hafi …
Lögreglan í Vestmannaeyjum telur að um fimmtán þúsund manns hafi sótt þjóðhátíð í ár og var hátíðin svipuð að stærð og árið 2018. Alls komu 222 mál inn á borð lögreglu þessa verslunarmannahelgina. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Þrjú kynferðisbrot eru til rannsóknar hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum eftir verslunarmannahelgina. Þetta kemur fram í Facebook-færslu lögreglunnar í Vestmannaeyjum þar sem farið er ítarlega yfir verkefni lögreglu á þjóðhátíð í ár. Níu líkamsárásir voru tilkynntar um helgina og 25 fíkniefnamál komu inn á borð lögreglu. 

Lögreglan telur að um fimmtán þúsund manns hafi sótt þjóðhátíð í ár og var hátíðin svipuð að stærð og árið 2018. Samtals sinntu 27 lögreglumenn löggæslu á þremur lögreglubifreiðum auk 130 gæslumanna sem lúta stjórn lögreglu. Tveir sérsveitarmenn Ríkislögreglustjóra voru til aðstoðar lögreglu á sérútbúnum bíl. Sex óeinkennisklæddir lögreglumenn sinntu fíkniefnaeftirliti og höfðu sér til aðstoðar 3-4 fíkniefnaleitarhunda. Starfandi læknir var í dalnum auk heilbrigðisstarfsfólks, áfallateymis, barnaverndar og sjúkraflutningamanna og gengu allir sólarhringsvaktir.

27 lögreglumenn auk 130 gæslumanna sinntu löggæslu á þjóðhátíð í …
27 lögreglumenn auk 130 gæslumanna sinntu löggæslu á þjóðhátíð í ár. Vel gekk að leysa úr öllum verkefnum sem komu inn á borð lögreglu. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Þrjár af líkamsárásunum níu eru meiriháttar með tilliti til áverka þar sem um beinbrot var að ræða. Aðrar voru minniháttar og þar af eitt heimilisofbeldismál. Önnur brot voru tvö eignaspjöll, einn þjófnaður, ein hótun, einn nytjastuldur, brot á reynslulausn og sex áfengislagabrot. Þá voru tveir teknir fyrir ölvunarakstur og einn fyrir fíkniefnaakstur.

Færri fíkniefnamál en í fyrra

Heildarfjöldi fíkniefnamála voru 25 að þessu sinni, tíu færri en í fyrra. Grunur er um sölu- og dreifingu í tveimur þessara mála. Að mati lögreglu var minna um fíkniefnaneyslu á hátíðinni nú en áður. 

Umferð gekk vel þessa helgi í Vestmannaeyjum en lögreglan telur að huga þurfi sérstaklega að akstri inn á hátíðarsvæðið á næsta ári. Fólksflutningar gengu vel bæði með Herjólfi og innanbæjar með strætóum og leigubílum.

Lögregla sinnti alls 222 verkefnum yfir hátíðina og gekk vel að leysa úr öllum verkefnum sem komu inn á borð hennar. Að mati lögreglu gekk löggæsla vel og voru bæði lögregla og gæslumenn áberandi í Herjólfsdal og stutt í aðstoð. Viðbragð í sjúkraskýli, hjá áfallateymi og barnavernd var gott og var fjölmörgum sinnt vegna mismunandi erfiðleika. Lögregla þakkar viðbragðsaðilum fyrir gott samstarf vegna þjóðhátíðar sem er jafnan stærsta löggæsluverkefni lögreglunnar á ári hverju.mbl.is