Áhrifin á Ísland líklega vægari

AFP

Hvorki er tekið tillit til bráðabrigðaviðskiptasamnings Íslands og Bretlands eða væntanlegum framtíðarsamningi landanna í skýrslu Bertelsmann Stiftung um efnahagsáhrif Brexit og fjallað var nýverið um í Financial Times. Þetta staðfestir einn höfunda skýrslunnar, Dr. Dominic Ponattu, í samtali við mbl.is. „Slíkir samningar eru ekki í líkani okkar.“

Jafnframt telur hann að slíkir samningar séu til þess fallnir að draga úr mögulegum neikvæðum áhrifum af útgöngu Breta úr Evrópusambandinu án samnings við sambandið.

Ponattu segir skýrsluna aðeins unna á grundvelli tveggja sviðsmynda borið saman við ríkjandi ástand. Í fyrsta lagi hörðu Brexit – útgöngu Breta úr ESB án samnings við sambandið – og í öðru lagi mjúku Brexit – útgöngu Bretlands á grundvelli útgöngusamningsins sem breska þingið hafnaði þrisvar sinnum.

Fram hefur komið í umfjöllun mbl.is að Ísland og Noregur hafa þegar landað bráðabirgðasamningi við Breta sem tryggir óbreytt fyrirkomulag vöruviðskipta milli þeirra og Bretlands. Samningurinn gerir einnig ráð fyrir óbreyttum kvótum fyrir tollfrjáls viðskipti með landbúnaðar- og sjávarafurðir.

Þá hefur einnig komið fram að unnið sé að framtíðarsamningi við Breta.

Skýrslan (Estimating the impact of Brexit on European countries and regions) segir að Ísland er eitt þeirra ríkja sem getur tapað mest á útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

„Þetta eru samningar sem ekki eru undirritaðir,“ segir Ponattu og bendir á að vegna þess að Bretar eru enn í Evrópusambandinu er þeim óheimilt að gera sjálfstæða viðskiptasamninga. Formlega er því ekki hægt að ganga frá samningum fyrr en Bretland hefur gengið úr sambandinu. „Þetta er ástæða þess að slík samkomulög eru ekki inni í reikningslíkani okkar.“

„Hins vegar geta slík samkomulög breytt niðurstöðunni fyrir þau ríki sem eru þátttakendur í slíkum samningum ef af þeim verður, niðurstaðan getur því verið jákvæðari en sýnist,“ segir hann og bætir við að slíkir viðskiptasamningar koma ekki í veg fyrir óbein áhrif.

„Mín tilgáta er að ef það verður af slíkum samningum þá verða áhrifin á ríkin sem hafa slíka samninga líklega í takt við sviðsmyndina sem við sjáum fyrir okkur í tengslum við mjúkt Brexit,“ segir Ponattu. „Það er erfitt í reikningslíkani að taka tillit til samninga sem við enn vitum ekkert um.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert