Dökkir og ljósir punktar í helgarspánni

Frá Hinsegin dögum á síðasta ári. Bjart verður yfir borginni, …
Frá Hinsegin dögum á síðasta ári. Bjart verður yfir borginni, en blásið gæti á hátíðargesti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Útlit er fyrir að ekki verði allsstaðar jafn mikil veðurblíða á landinu um komandi helgi eins og landsmenn hafa margir átt að venjast í sumar. Framundan eru tónleikar Ed Sheeran á Laugardalsvelli í Reykjavík á laugardags- og sunnudagskvöld, Hinsegin dagar í Reykjavík og Fiskidagurinn mikli á Dalvík, svo eitthvað sé nefnt.

Theodór Freyr Hervarsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir líklega verði bjartara yfir stórtónleikunum á Laugardalsvelli heldur en tónleikum Fiskidagsins mikla sem jafnan eru mikilfenglegir einnig.

„Spáin mætti alveg vera betri fyrir Fiskidaginn. Það er leiðinlega stíf norðanátt og viðbúið að það muni rigna svona lengst af um helgina. Mesta úrkoman verður væntanlega á sunnudeginum og það rignir í minni mæli á föstudegi og laugardegi. Það verður ekkert sérstaklega hlýtt yfir daginn, 6-8 stig yfir daginn, úrkoma í ofanálag og skýjað allan tímann,“ segir Theodór Freyr. „Í dag hefur víða á þessu svæði verið 6-8 stiga hiti og ég á von á að það verði svipað,“ segir hann, en bjartara verður yfir í borginni.

Skýjað yfir tónleikagestum á sunnudag

„Veðrið verður skárra í Reykjavík hvað það varðar að það verður sólríkt í Reykjavík. Við gætum verið að fá allt að 15 stiga hita yfir daginn. Við fundum það í gærkvöldi og í morgun að það hefur verið kaldara en verið hefur að undanförnu. Það er einhver hætta á að það verði dálítill blástur. Það gæti orðið meiri blástur vestur í bæ heldur en í austurbænum, en norðanáttin gæti aðeins látið til sín taka,“ segir Theodór, en engin sérstök væta er í kortunum.

„Það verður ekkert slíkt að sjá, ekki á meðan það verður léttskýjað að mestu leyti,“ segir hann, en þó verður skýjað í höfuðborginni á sunnudag þegar síðari tónleikar Sheeran fara fram þótt ekki sé útlit fyrir úrkomu.

Sunnan- og vestanlands spáir léttskýjuðu áfram um helgina og gjólu, Norðan- og austanlands er von því að það verði skýjað og rigning að mestu leyti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert