Gatan við Kiki máluð í regnbogans litum

Klapparstígurinn var málaður í morgun á kaflanum milli Laugavegs og …
Klapparstígurinn var málaður í morgun á kaflanum milli Laugavegs og Grettisgötu. mbl.is/RAX

Málaðar voru gleðirendur upp Klapparstíg frá Laugavegi að Grettisgötu í dag. Borgarstjóri tók þátt og auðvitað fólkið sem stendur að Hinsegin dögum í Reykjavík nú um stundir. Hátíðin er opnunarhátíð Hinsegin daga ár hvert.

„Þetta var algerlega frábært! Það var gott veður, góð stemning, falleg gata og svo voru svo margir mættir að við kláruðum að mála þetta miklu fyrr en við gerðum ráð fyrir. Alls konar börn og fullorðnir úr öllum áttum hjálpuðu okkar, sem er auðvitað bara táknrænt fyrir þessa hátíð hér á landi, þar sem við búum við það að Hinsegin dagar eru hálfgerð þjóðhátíð, þar sem allir taka þátt,“ segir Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga, við mbl.is

Að mála götur í öllum regnbogans litum, táknrænt fyrir fjölbreytileikann, er orðin hefð hér í bæ. Regnboginn hefur prýtt Skólavörðustíg 2015, Menntaveginn sem liggur að MR 2016, planið hjá Ráðhúsi Reykjavíkur 2017 og Skólavörðustíginn aftur 2018.

Meðal viðstaddra var Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Gunnlaugur Bragi Björnsson, …
Meðal viðstaddra var Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga og varaborgarfulltrúi, og Ugla Stefanía formaður Trans Íslands. Rax / Ragnar Axelsson

Hinsegir dagar eru hafnir hér með. Þó að hátíðin nái ekki hámarki með Gleðigöngunni sjálfri fyrr en þarnæsta laugardag er ýmislegt að frétta þangað til. Í vikunni fram að sjálfri göngunni eru fleiri tugir viðburða á dagskrá, bókmenntagöngur, fræðslufundir, myndlistarsýningar og hvaðeina.

Hinsegin dagar í Reykjavík eru allt í senn baráttuhátíð fyrir réttindum hinsegin fólks, gleðihátíð sem fagnar fjölbreytileika mannlífsins og menningarhátíð sem hugar að ýmsum kimum hinsegin menningar – og „hinsegin“ hliðum menningar almennt.

Albert Eiríksson fjölmiðlamaður og mannasiðameistari var mættur á staðinn og skreytir hér götuna fyrir utan Kíkí með Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur borgarfulltrúa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert