Mistök að gefa upp verðið of snemma

Blokkin sem um ræðir samanstendur af 68 íbúðum fyrir eldri …
Blokkin sem um ræðir samanstendur af 68 íbúðum fyrir eldri borgara. Langflestir hafa samþykkt breytt kaupverð. Formaður FEB segir að verði farið í mál við félagið vegna hækkunarinnar þá hafi það það ekki af. mbl.is/Árni Sæberg

„Það voru mistök hjá okkur að gefa upp verð á íbúðum í Árskógum áður en útgjöld við byggingu húsanna voru komin til skila. Þegar þau lágu fyrir var ljóst að nauðsynlegt væri að hækka söluverðið,“ segir Ellert B. Schram, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, í samtali við mbl.is. Enn eru einhverjir sem hyggjast leita réttar síns hjá dómstólum eftir að kaupverð á íbúðum í Árskógum var hækkað eftir að kaupsamningur hafði verið undirritaður.

Sú hækkun hafði í för með sér aukinn kostnað fyrir kaupendur sem í sumum tilvikun nam fleiri milljónum, alltént fyrir þá sem kusu ekki að hverfa frá kaupunum.

Ellert B. Schram er formaður Félags eldri borgara í Reykjavík …
Ellert B. Schram er formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Í gær var fundað við hlutaðeigandi og mikill meirihluti 23 íbúðakaupenda sem rætt var við hefur fallist á að greiða aukakostnaðinn. Einhverjir segjast þó ætla í mál við félagið, sem Ellert segir ljóst hvernig muni enda. „Það þýðir það ósköp einfaldlega, að samtökin leggjast niður. Við höfum enga peninga og ráðum ekki við neitt slíkt,“ segir hann. 

Þeim sem hafnað hafa aukagreiðslunni býðst að hætta alfarið við kaupin og fá það fé endurgreitt, sem þegar hefur verið innt af hendi. Þannig getur fólk sagt sig alveg laust, segir Ellert. „Sannleikurinn er þó sá að þótt að hópurinn þurfi að borga þessar 400 milljónir í viðbót eru íbúðirnar enn langt fyrir neðan markaðsverð á sambærilegum íbúðum. Þannig að þetta er alls ekkert okur,“ segir Ellert.

Verra ef dregin er upp svört mynd af félaginu

„Við erum ekki að knýja neinn til þess að greiða neitt umfram það sem verkið kostar. Kostnaðurinn jókst þarna án þess að við áttuðum okkur á því og málið felst fyrst og fremst núna í að fólk átti sig á því hver staða okkar er,“ segir Ellert.

Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni er eins og nærri má getið ekki fyrirtæki stofnað með það fyrir augum að hagnast á starfseminni. „Það eina sem vakir fyrir okkur, mér og stjórnarmönnum FEB, er að gera eitthvað fyrir gamla fólkið. Ég er 79 ára gamall, hef engin laun af þessu, hef bara tekið þetta verkefni að mér í þágu eldri borgara. Það er verra, og það er ósatt, ef fólk fer að draga upp þá mynd að við séum að reyna að græða á einhverju, hvað þá húsnæði fyrir eldri borgara á yfirgengilegu verði“ segir Ellert.

Hann segir að síðustu daga hafi skilningur á stöðunni sem félagið er í aukist og sú þróun stuðli að því að lausn fáist að endingu í málið. „Ég vona bara að við getum leitt þetta mál til lykta sem fyrst,“ segir hann. Áfram verður fundað og áfram verður leitað sátta.

mbl.is