Skýrslugerð um fjórða pakkann hafnað

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Meirihluti utanríkismálanefndar Alþingis hefur hafnað þeirri ósk Gunnars Braga Sveinssonar, þingflokksformanns Miðflokksins, að farið verði þess á leit við þingið eða utanríkisráðuneytið vinni skýrslu eða greinargerð um fjórða orkupakka Evrópusambandsins. Þessu greinir Gunnar Bragi frá á Facebook.

Fjallað var um skýrslubeiðni Gunnars Braga á mbl.is fyrr í dag en þar var haft eftir honum að hann ætti ekki von á öðru en að vel yrði tekið í málið af utanríkismálanefndinni. Þar óskaði Gunnar Bragi eftir að skoðuð yrði hvaða áhrif það hefði á orkumál hér á landi ef fjórði orkupakkinn, sem samþykktur hefur verið af Evrópusambandinu og til stendur að taka upp í EES-samninginn, verður innleiddur í íslenska löggjöf.

„Meirihlutinn ber því við að þingflokkar geti gert þetta sjálfir og vísa í því tilefni til samkomulags um þinglok. Þar stendur að þingflokkum sé heimilt að láta framkvæma ákveðna vinnu o.s.frv. Hvergi kemur fram að Alþingi eða framkvæmdavaldið muni ekki skoða málið frekar. Það er með ólíkindum að meirihlutinn undir forystu Sjálfstæðisflokksins skuli neita að leita svara við mikilvægum spurningum!,“ segir hann.

Gunnar Bragi hefur óskað eftir því að meirihlutinn vísi erindi hans til Utanríkisráðuneytisins. „Fróðlegt verður að sjá hvort meirihluti utanríkismálanefndar verður við þeirri ósk og þá hvort ráðuneytið svari.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert