Verður höfðað mál gegn Íslandi?

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Sú ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að höfða mál fyrir dómstól sambandsins gegn stjórnvöldum í Belgíu vegna þess hvernig þau stóðu að innleiðingu þriðja orkupakkans hefur vakið talsverða athygli hér á landi í ljósi umræðunnar sem átt hefur sér stað undanfarna mánuði um innleiðingu pakkans hér.

Meðal þess sem einkum hefur verið tekist á um í umræðunni hér á landi um þriðja orkupakkann, sem ríkisstjórnin vill innleiða vegna aðilar Íslands að EES-samningnum, er hvort sú leið sem stjórnvöld vilja fara við innleiðinguna standist samninginn og löggjöfina sem orkupakkinn byggir á og hvort hugsanlega kunni að verða höfðað samningsbrotamál af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum.

Stuðningsmenn þess að þriðji orkupakki Evrópusambandsins verði samþykktur hér á landi vegna EES-samningsins, hafa sagt að þeir telji engar líkur á því að samningsbrotamál verði höfðað gegn Íslandi vegna fyrirhugaðrar innleiðingar orkupakkans hér á landi vegna rangrar innleiðingar hans eða að skaðabótamál verði höfðað gegn Íslandi verði pakkinn samþykktur en mögulegri umsókn um lagningu sæstrengs síðan hafnað.

Þeir sem leggjast gegn samþykkt þriðja orkupakkans telja að sú leið sem ríkisstjórnin hyggst fara við að innleiða orkupakkann, það er að samþykkja hann og innleiða löggjöfina sem hann inniheldur en fresta gildistöku þess hluta hennar sem deilt er um að standist stjórnarskrána, standist ekki EES-samninginn og fyrir vikið sé hætta á að höfðað verði samningsbrotamál gegn Íslandi. Þá sé líklegt að til skaðabótamáls komi.

Komið gæti til málshöfðunar gegn Íslandi

Dómsmálið gegn Belgíu byggir á því að eftirlitsaðila orkumála þar í landi hafi ekki verið veitt vald til þess að taka bindandi ákvarðanir varðandi gas- og raforkumál og geti einungis lagt til við ríkisstjórnina að slíkar ákvarðanir verði teknar. Að sama skapi séu skilyrði fyrir tengingum við tengivirki fyrir rafmagn og gas sett af stjórnvöldum en ekki eftirlitsaðilanum. Þá sé ekki hægt að tryggja jafnan aðgang orkufyrirtækja að tengivirkjum.

Hér á landi er gert ráð fyrir að umræddur eftirlitsaðili verði Orkustofnun. Með þriðja orkupakkanum verður eftirlit stofnunarinnar sjálfstætt gagnvart íslenskum stjórnvöldum en mun hins vegar heyra undir Eftirlitsstofnun EFTA og í gegnum hana orkustofnun Evrópusambandsins, ACER. Andstæðingar þriðja orkupakkans telja að dómsmálið gegn Belgíu sé til marks um áherslu Evrópusambandsins á rétta innleiðingu pakkans.

Komið er inn á hlutverk Orkustofnunar samkvæmt þriðja orkupakkanum  í álitsgerð þeirra Stefáns Más Stefánssonar, prófessors við lagadeild Háskóla Íslands, og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst landsréttarlögmanns sem unnin var um málið fyrir utanríkisráðuneytið. Þar segir að spurningar vakni um það hvort lagaleg umgjörð stofnunarinnar fullnægi kröfum sem gerðar eru samkvæmt orkupakkanum til slíkra eftirlitsaðila í ljósi þess að hún muni áfram heyra undir eftirlits- og yfirstjórnunarheimildir ráðherra.

Reynist þessar hugleiðingar þeirra Stefáns Más og Friðriks Árna á rökum reistar gæti sú staða mögulega komið upp, komi til þess að þriðji orkupakkinn verði samþykktur á Alþingi um næstu mánaðarmót eins og stjórnvöld gera ráð fyrir, að Eftirlitsstofnun EFTA muni í kjölfarið höfða mál gegn Íslandi á þeim forsendum að staða Orkustofnunar sem eftirlitsaðila verði ekki fullnægjandi í ljósi löggjafarinnar líkt og í tilfelli Belgíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina