Vill skýrslu um fjórða orkupakkann

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins. mbl.is/Hari

Þingflokksformaður Miðflokksins hefur óskað eftir því við utanríkismálanefnd Alþingis að þinginu eða utanríkisráðuneytinu verði falið að láta vinna greinargerð eða skýrslu um innihald og réttaráhrif fjórða orkupakka Evrópusambandsins.

Frá þessu segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, á Facebook-síðu sinni en fyrr á þessu ári var greint frá því í fjölmiðlum að fjórði orkupakkinn hefði verið samþykktur á vettvangi Evrópusambandsins og er gert ráð fyrir því að í framhaldinu verði hann tekinn upp í EES-samninginn sem Ísland á aðild að.

Skýrslubeiðnin var send til utanríkismálanefndar í byrjun vikunnar og segist Gunnar Bragi ekki eiga von á öðru en að vel verði tekið í hana. Óskar Gunnar Bragi enn fremur eftir því að Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Friðrik Árni Friðriksson Hirst landsréttarlögmaður komi að verkefninu.

Meðal þess sem Gunnar Bragi vill að verði kannað eru þær breytingar sem gera þurfi á íslenskum lögum vegna fjórða orkupakkans og áhrif hans á íslensk orkufyrirtæki og íslenskan orkumarkað. Aukinheldur hvernig lög og reglur vegna þriðja orkupakka Evrópusambandsins muni breytast með fjórða pakkanum.

Gunnar Bragi vill ennfremur að kannað verði hvaða breytingar verði á starfs- og valdsviði Orkustofnun Evrópusambandsins (ACER) með fjórða orkupakkanum og áhrif þeirra breytinga gagnvart Íslandi. Enn fremur hver séu helstu álitaefni sem komið hafi fram innan Evrópska efnahagssvæðisins varðandi fjórða orkupakkann og hvort íslensk stjórnvöld telji þörf á undanþágum frá honum eða hluta hans og þá hverjar.

Þá verði gerð verði grein fyrir þróun evrópska orkumarkaðarins og markmiðum Evrópusambandsins varðandi hinn sameignlega orkumarkað sambandsins. Óskað er eftir því að beiðnin verði tekin fyrir á fundi utanríkismálanefndar í ágústmánuði sem og að gestir verði kallaðir á fund nefndarinnar til að ræða orkupakkana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert