Allir nemendur verða í Fossvogsskóla í haust

Framkvæmdir við Fossvogsskóla vegna mygluskemmda hafa staðið frá því í …
Framkvæmdir við Fossvogsskóla vegna mygluskemmda hafa staðið frá því í vor. mbl.is/Hallur Már

Þrátt fyrir að framkvæmdum við eina af þremur álmum Fossvogsskóla ljúki ekki fyrr en í lok nóvember munu allir nemendur skólans hefja þar nám í lok ágúst. Næst það meðal annars með breytingum á bókasafni sem skapar betri nýtingu á skólahúsnæðinu. Þetta kemur fram í pósti Aðalbjargar Ingadóttur, skólastjóra Fossvogsskóla, til foreldra nemenda við skólann.

Á síðasta skólaári var greint frá mygluskemmdum á skólahúsnæðinu og þurfti að fara í víðtækar lagfæringar á öllum þremur álmum skólans; Vesturlandi, Austurlandi og Meginlandi. Vegna þeirrar vinnu var á fjórða hundrað nemendum skólans fundin aðstaða í höfuðstöðvum KSÍ og í Þróttaraheimilinu í Laugardal. Voru rútuferðir frá Fossvogi yfir í Laugardalinn.

Í pósti Aðalbjargar kemur fram að framkvæmdum á Meginlandi og Austurlandi ljúki 15. ágúst, en sama dag verður haldinn upplýsingafundur með foreldrum. Viku síðar er svo skólasetning. Verklok innanhúss og á þaki Vesturlands og við sögun veggja í matsal og veggja á lóð sunnan megin við skólann eru hins vegar ekki áætluð fyrr en í seinni hluta nóvember. Þá verður jafnframt lokið við frágang á lóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert