Andlát: Ragnar S. Halldórsson

Ragnar S. Halldórsson
Ragnar S. Halldórsson

Ragnar S. Halldórsson, fyrrverandi forstjóri og stjórnarformaður Íslenska álfélagsins, lést á Landspítalanum í Fossvogi síðastliðinn miðvikudag, 7. ágúst, 89 ára að aldri.

Ragnar var fæddur í Reykjavík 1. september 1929, sonur Halldórs Stefánssonar, forstjóra og alþingismanns, og Halldóru Sigfúsdóttur. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1950 og M.Sc.-prófi í byggingaverkfræði frá DTH í Kaupmannahöfn árið 1956. Það sama ár hóf hann störf hjá Bandaríkjaher á Keflavíkurflugvelli og var yfirverkfræðingur og síðar framkvæmdastjóri verkfræðideildar sjóhersins þar á þeim tímum þegar yfir stóðu miklar framkvæmdir á vegum Varnarliðsins.

Árið 1966 fór Ragnar til starfa hjá Swiss Aluminium í Sviss og Austurríki og tók í framhaldi af því, eða árið 1969, við starfi forstjóra álvers ÍSAL í Straumsvík sem þá var verið að setja á laggirnar. Því starfi gegndi Ragnar til ársins 1988 og var eftir það formaður stjórnar ÍSAL um skeið. Vegna starfa sinna fyrir ÍSAL var Ragnar áberandi sem áhrifamaður í þjóðlífinu um langt árabil.

Um dagana gegndi Ragnar fjölmörgum félags- og trúnaðarstörfum. Hann átti sæti í stjórn Verkfræðingafélags Íslands í nokkur ár og var formaður þess um skeið, var lengi í forystusveit Verslunarráðs Íslands og formaður þess 1982-1985. Þá var Ragnar lengi í framkvæmdastjórn Vinnuveitendasambands Íslands auk þess að sitja í stjórnum fjölda fyrirtækja og félaga. Þá átti Ragnar um skeið sæti í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins og var enn fremur í stjórn Hjartaverndar.

Eftirlifandi kona Ragnars er Margrét Kristín Sigurðardóttir viðskiptafræðingur í Reykjavík. Þau eignuðust fjögur börn sem eru Kristín Vala, prófessor við Háskóla Íslands, Halldór Páll, forstjóri verktakafyrirtækisins Pihl&Søn í Danmörku, Sigurður Ragnar, forstjóri ÍAV, og Margrét Dóra sem er sjálfstætt starfandi tölvu- og sálfræðingur. Barnabörnin eru átta talsins. Útför Ragnars verður gerð síðar í þessum mánuði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert