Launakröfur upp á fjóra milljarða

Óvíst er hve mikið fæst upp í forgangskröfur í þrotabú …
Óvíst er hve mikið fæst upp í forgangskröfur í þrotabú WOW air, hvað þá almennar kröfur. mbl.is/Hari

Launakröfur starfsmanna í þrotabú WOW air nema á fjórða milljarð króna. Þær kröfur eru að mestu tilkomnar vegna réttar starfsfólks til launaðs uppsagnarfrests, en ekki vangreiddra launa vegna vinnu sem unnin var af hendi. Kröfurnar heyra til forgangskrafna og verða því greiddar út áður en tekið verður tillit til almennra krafna í búið.

Meðal annarra forgangskrafna eru vangreidd lífeyrisiðgjöld, en þær koma væntanlega einkum til vegna umræddra launakrafna í uppsagnarfresti. Lífeyrissjóður verzlunarmanna gerir 121 milljónar króna kröfu í búið, Gildi lífeyrissjóður gerir 20 milljóna króna kröfu og Almenni lífeyrissjóðurinn 32 milljóna króna kröfu. Þá gerir Flugfreyjufélag Íslands 17 milljóna kröfu í búið.

Alls nema forgangskröfur rúmum fimm milljörðum króna, að því er fram kemur í kröfuskrá þrotabúsins, sem birt var kröfuhöfum í dag.

Af almennum kröfum má nefna kröfu Vals Úlfarssonar upp á sléttar 100 milljónir króna og kröfu GAMMA Capital upp á 281 milljón króna. Rétt er að taka fram að kröfuskráin inniheldur allar kröfur í búið og gat hver sem er lýst kröfu. Ekki hefur verið tekin afstaða til hverrar kröfu fyrir sig, en þess er að vænta á skiptafundi félagsins sem haldinn verður á Hilton Nordica-hótelinu við Suðurlandsbraut klukkan 16 á föstudag eftir viku, 16. ágúst.

mbl.is