Upplýsingar um úthlutun ekki fengist

Ekki hafa fengist upplýsingar um það hvernig staðið var að …
Ekki hafa fengist upplýsingar um það hvernig staðið var að úthlutun íbúðanna. 300 manns lýstu yfir áhuga á því að kaupa íbúð í tveimur fjölbýlishúsum FEB við Árskóga 1-3. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki hafa fengist upplýsingar um fyrirkomulag úthlutunar íbúða í tveimur fjölbýlishúsum við Árskóga 1-3 þar sem Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni bauð félagsmönnum sínum að kaupa íbúðir. Ljóst varð í síðustu viku að íbúðirnar myndu hækka í verði og hafa kaupendur upp frá því fundað með fulltrúum FEB þar sem þeim er boðið að greiða hærra verð fyrir íbúðirnar eða falla frá kaupunum. Sumir hafa fallist á að greiða hærra verð, aðrir kanna réttarstöðu sína.

Gísli Jafetsson, framkvæmdastjóri FEB og Þorbergur Halldórsson, formaður byggingarnefndar FEB, eru meðal kaupenda íbúðanna. Þeir hafa ekki svarað símhringingum eða smáskilaboðum frá mbl.is og Morgunblaðinu frá því í síðustu viku þegar ljóst varð að íbúðir FEB hækkuðu í verði. Gísli keypti um 127 fermetra íbúð á efstu hæð, og Þorbergur keypti um 141 fermetra íbúð á næstefstu hæð.

Ellert B. Schram, formaður FEB, sagði framkvæmdastjóra og byggingarnefnd hafa annast úthlutun íbúðanna í samtali við Morgunblaðið í síðustu viku. Byggingarnefndarmaður sem mbl.is ræddi við í dag vísaði á Gísla Jafetsson. Ellert sagði stjórn félagsins enga aðkomu hafa átt að úthlutun íbúðanna. Síðar sagði hann í samtali við Morgunblaðið að ekki væri óeðlilegt að þeir Gísli og Þorbergur væru meðal kaupenda enda væru þeir félagar í FEB.

FEB ákvað í kjölfar verðhækkunarinnar að aflétta þeirri kvöð af íbúðunum að óheimilt sé að selja þær á markaðsverði. Ellert sagði í samtali við Morgunblaðið fyrir skemmstu að þetta væri gert í því skyni að koma til móts við íbúðarkaupendur í fjölbýlishúsunum.

Stigakerfi notað við mat á umsækjendum

Einu upplýsingarnar sem fengist hafa um úthlutun íbúðanna koma fram í fundargerðum stjórnar FEB. Þar kemur fram í fundargerð frá 22. ágúst 2017 að stjórnin hafi samþykkt tillögu byggingarnefndar um mat á umsækjendum og byggingarnefnd falið að ljúka málinu. Í tillögunni komu fram sjö atriði til grundvallar mati á umsækjendum: 

  1. Að vera félagsmaður í FEB.
  2. Mat á fjárhagslegri getu með jákvæðri umsögn lánveitanda við greiðslumat. 
  3. Hversu lengi hefur viðkomandi verið félagsmaður.
  4. Hvenær viðkomandi setti sig á lista yfir „áhugasama“.
  5. Lífaldur viðkomandi, gert til að skapa ákveðna breidd í aldurshópi verðandi íbúa.
  6. Skuldbinding um fasta búsetu sbr. Lög um lögheimili nr. 21/1990 í viðkomandi íbúð
  7. Kynnt sér og samþykkt þær kvaðir sem á lóðinni og þar með íbúðunum eru. 

Í fundargerð frá 10. ágúst 2018 kemur fram að bréf hafi verið send út í júní það ár til um 90 [umsækjenda] sem flest „stig“ fengu samkvæmt reglum stjórnar FEB frá því í ágúst 2017. Síðan hafi þessu verið fylgt eftir með tölvupósti í byrjun ágúst. Á þessum tímapunkti hafi 60 svarað, þar af 56 jákvætt. Ekkert kemur fram um umrætt stigakerfi í fundargerðum FEB, en samkvæmt upplýsingum mbl.is, annað en framangreint. Erfiðlega hefur gengið að afla upplýsinga um umrætt kerfi.

Fram hefur komið, af hálfu FEB, að 300 félagsmenn hafi sýnt íbúðunum áhuga, en þær eru 68 talsins eftir að ákveðið var að fjölga íbúðum í húsinu úr 52 með því að byggja ofan á það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert