Fundu bakpoka í vatninu

Leitað er við sunnanvert Þingvallavatn, þar sem bátur og bakpoki …
Leitað er við sunnanvert Þingvallavatn, þar sem bátur og bakpoki fundust. mbl.is/Sigurður Bogi

Sjötíu manns frá lögreglu á Suðurlandi og björgunarsveitum Árnessýslu leita nú að manni við sunnanvert Þingvallavatn, skammt frá bænum Villingavatni, eftir að mannlaus bátur fannst á vatninu. Báturinn er lítill og segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, að sennilega hafi aðeins einn verið um borð.

Leit hefur staðið yfir frá því á fjórða tímanum en eina vísbending leitarmanna, auk bátsins, er enn sem komið er bakpoki sem fannst í vatninu.

Lögð er áhersla á að leita í flæðarmáli vatnsins, en björgunarsveitarmenn hafa einnig gengið hús úr húsi í nálægu sumarbústaðalandinu til að spyrja fólk hvort það þekki til bátsins eða hafi séð mannaferðir á svæðinu. 

Leit stendur yfir fram undir myrkur, nema hún beri árangur fyrr. Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið á vettvangi, og er á leið þangað á ný eftir að hafa þurft frá að hverfa til að fylla mætti á bensíntankinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert