Guðmundur og Glúmur meistarar

Ljósmynd/Aðsend

Seinni umferð í 250 metra skeiði fór fram í morgun á heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Berlín. Eftir fyrri umferðina voru Bergþór Eggertsson og Besti frá Upphafi með besta tímann en í seinni umferðinni náðu Guðmundur Björgvinsson og Glúmur frá Þóroddsstöðum frábærum spretti á  21,80 sek. sem tryggði þeim heimsmeistaratitilinn.

Önnur varð hin breska Charlotte Cook á Sælu frá Þóreyjarnúpi, þriðji varð Daníel Ingi Smárason á Huldu frá Margaretehofi sem keppir fyrir Svíþjóð og fjórði varð Bergþór Eggertsson á Besta frá Upphafi.

Í flokki ungmenna endaði Benjamín Sandur Ingólfsson í fimmta sæti á Messu frá Káragerði, að því er segir í tilkynningu.

Ljósmynd/Aðsend

Íslenska liðið átti einn keppenda í b-úrslitum í fjórgangi. Ásmundur Ernir Snorrason og Frægur frá Strandarhöfði urðu í öðru sæti á eftir Irene Reber og Þokka frá Efstu-Grund sem unnu sér þar með upp í a-úrslit sem verða riðin á morgun. Ásmundur og Frægur enda þar með í sjöunda sæti í fjórgangi.

Í gær fór fram forkeppni í tölti. Jóhann Rúnar Skúlason og Finnbogi frá Minni-Reykjum eru langefstir eftir forkeppni með 8,90 í einkunn. Í flokki ungmenna eru Ásdís Ósk Elvarsdóttir og Koltinna frá Varmalæk í öðru sæti eftir forkeppni og mæta a-úrslit á morgun.

Í flokki ungmenna urðu Hákon Dan Ólafsson og Stirnir frá Skriðu þriðju í b-úrslitum í slaktaumatölti með einkunnina 6,63 og enda þar með í 8. sæti.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is