Lyklarnir teknir eftir einn bjór

Ný umferðarlög tóku gildi rétt undir þinglok. Til stóð að …
Ný umferðarlög tóku gildi rétt undir þinglok. Til stóð að gera 0,2 prómill refsiverð í nýjum lögum en lögreglan mælti gegn því að svo yrði, því það hefði krafist mikillar vinnu sem væri óþörf að einhverju marki. Í staðinn var það fest í lög, að stöðva bæri ökumenn sem mældust á milli 0,2 og 0,5 prómilla, taka af þeim bíllyklana og skrá brotið. Ef um síbrot er hins vegar að ræða, má kæra menn fyrir það. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólöglegt er að keyra ef magn vínanda í blóði ökumanns er meira en 0,2‰. Á meðan hlutfallið fer þó ekki yfir 0,5‰ er brotið ekki refsivert og afleiðingarnar sem það hefur að mælast með hlutfall á milli 0,2 og 0,5 við akstur eru ekki meiri en þær, að för ökumanns er stöðvuð. Lögreglan tekur af honum lyklana og hann má sækja þá niður á stöð daginn eftir. Jafnframt er brotið hans skráð hjá lögreglu, þó það fari ekki á sakaskrá viðkomandi. Hann heldur hins vegar ökuréttindum og honum er ekki gert að greiða sekt.

Þetta þýðir að menn eiga ekki á hættu að vera sektaðir fyrir að drekka einn bjór og setjast svo undir stýri. Þeir gætu þó verið stöðvaðir og þurft að bjarga sér á vegum úti, eftir að hafa verið meinað að keyra lengra.

Framkvæmd umferðarlaga hefur verið með þessum hætti um árabil. Það var hins vegar fyrst með samþykkt frumvarps 14. júní á þessu ári um breytingu á umferðarlögum, sem framkvæmdin var færð í lög. Fyrst stóð til að rýmka refsirammann niður í 0,2‰, þannig að ökumenn sem mældust með meira en það fengju sekt. Eftir að lögreglumenn gerðu athugasemdir við þau áform var hætt við það.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, var framsögumaður frumvarps að nýjum umferðarlögum.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, var framsögumaður frumvarps að nýjum umferðarlögum.

„Meðal rakanna sem vógu þyngst gegn því að víkka þann ramma voru að um helmingur þeirra sem eru stöðvaðir fyrir ölvunarakstur er undir 0,5‰. Ef refsa ætti fyrir að vera innan þessa ramma ykjust því aðgerðir lögreglu um 100% í þessum efnum. Og það var engin ástæða til að festa lögregluna í málum sem skipta minni máli, því þá hefði hún minni tími í alvarlegri brot,“ segir Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem var framsögumaður frumvarpsins.

„Að stöðva för“ hefur lengi tíðkast

Því var horfið frá því að gera 0,2‰ í blóði að refsiverðu broti. „Það er samt enn þá ólöglegt að keyra með 0,2‰ í blóðinu og það fer á skrá að brjóta þau lög,“ segir Vilhjálmur og áréttar að sú breyting sé hvað sem öllu líður til þess fallin að gera fólk ólíklegra til að keyra undir áhrifum, því eðli máls samkvæmt sé því illa við að brjóta lög.

Það hefur lengi tíðkast að sögn Vilhjálms að lögregla stöðvi för manna sem eru með meira en 0,2‰ í blóðinu. Áður var það magn þó ekki ólöglegt, heldur svo að segja einfaldlega talið óæskilegt. Því var iðulega gripið til þess ráðs að koma í veg fyrir að menn ækju lengra í því ástandi. Með breytingunum sem voru samþykktar á Alþingi 14. júní, án þess að mikið bæri á þeim enda málþóf Miðflokksmanna í brennidepli þá stundina, var akstur með 0,2‰ eða meira í blóðinu gerður formlega ólöglegur. Þó að ekki verði við slíkum akstri lögð refsing, má ætla að ef menn gerast sekir um síbrot á þessum reglum, verði gripið til aðgerða af hálfu lögreglu. Sömuleiðis sjá þeir það strax, þegar ökumenn eru stöðvaðir, hvort þeir eigi sögu af umferðarlagabrotum.

Samkvæmt upplýsingum frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda hljótast 0,2‰ af því að drekka einn áfengan drykk. Slíkar mælingar eru þó síður en svo algildar og fara eftir þyngd þess sem neytir. Næst á töflu eru 0,5‰ og hefur sá ökumaður drukkið 2-3 drykki. Á því hafa vel að merkja engar breytingar verið gerðar, að sá sem mælist yfir 0,5‰ fær í minnsta lagi sekt í refsingu, ef ekki sviptingu ökuréttinda, allt eftir því hve mikið mælist. Vísindamönnum hefur reynst erfitt að festa fingur á algildum líftíma vínanda í blóði en talið er að líkamanum takist undir venjulegum kringumstæðum að losa sig við 0,15 prómill af vínanda úr blóðinu á klukkustund.

mbl.is

Bloggað um fréttina