Orkupakkinn takmarkað framsal

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi málflutning Miðflokksins í umræðu um …
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi málflutning Miðflokksins í umræðu um þriðja orkupakka ESB harðlega í ræðu sinni í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta stenst enga skoðun, það er enginn trúverðugleiki á bak við svona málflutning,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, um málflutning Miðflokksins í umræðum um þriðja orkupakka Evrópusambandsins í ræðu sinni á opnum fundi með þingflokki Sjálfstæðisflokksins í morgun.

Húsfyllir var á fundinum sem haldinn var í húsakynnum flokksins í Valhöll.

Sagðist formaðurinn hafa á sínum beitt sér fyrir því að þingið tæki fyrir orkupakka Evrópusambandsins áður en málið fór til EES-nefndarinnar. Þá hafi þinginu verið ítrekað verið sent minnisblöð frá utanríkisráðuneytinu árin 2014 til 2016 – þegar Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, gegndi embætti utanríkisherra – sem voru þess efnis að innleiðing orkupakkans væri ekki brot gegn stjórnarskrá.

Skaut Bjarni einnig fast á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins.  „Þeir sem sátu í forsætisráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu og báru ábyrgð á meðferð EES-mála segja núna hvers vegna er þetta komið svona langt, þeir báru ábyrgð á minnisblöðunum og spyrja hvar eru minnisblöðin.“

Húsfyllir á fundi Sjálfstæðisflokksins í dag.
Húsfyllir á fundi Sjálfstæðisflokksins í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er skýrt afmarkað framsal sem við höfum heimild til þess að gera,“ staðhæfði formaðurinn.

Áréttaði formaðurinn að hann geri ekki lítið úr afstöðu þeirra flokksmanna sem lýst hafa áhyggjum af áhrifum orkuppakans.

Bjarni sagði umræðuna um sæstreng annað mál og að hans mat væri að sæstrengur sé ekki „raunhæfur valkostur, við höfum nóg með að koma orkunni milli landshluta.“ Jafnframt taldi hann ódýra orku vera hluta af samkeppnisforskoti Íslands sem ekki væri vilji til þess að afsala landinu. „Orkupakkinn fórnar ekki þessum hagsmunum. Ekkert framsal til ESB.“

Kannanir trufli ekki starfið

„Það virðist sem staðan í könnunum yfirskyggi raunverulegan árangur. Við megum ekki láta skoðanakannanir trufla okkur á miðju kjörtímabili,“ sagði.

Hann sagði alla viðstadda sammála um að staða Sjálfstæðisflokksins í mælingum ekki eins og best væri á kosið og að árangur flokksins væru ekki að endurspeglast í könnunum.  „Við höfum skilað góðu verki sem byggja á traustum grundvelli hugmynda Sjálfstæðisflokksins.“ Vísaði hann til skattalækkana, afnám gjaldeyrishafta og bætta stöðu ríkissjóðs.

„Ég fer í vinnuna á hverjum degi til þess að fylgja eftir baráttumálum okkar,“ sagði Bjarni og kvaðst ekki láta skoðanakannanir hafa áhrif á sín störf.

Fram kom í máli formannsins að breyttar aðstæður í stjórnmálunum hafi gert það að verkum að meiri krafa væri um málamiðlanir þar sem ekki hafi verið kostur að mynda tveggjaflokka ríkisstjórn. „Það hefur verið ótrúlega mikil ólga á sviði stjórnmálanna og aldrei fleiri flokkar á Alþingi. [...] Við getum ekki sett á oddinn okkar ítustu baráttumál.“

mbl.is