Aðstoðarmaður Lilju lætur af störfum

Jón Pétur Zimsen, aðstoðarmaður Lilju Alfreðsdóttur.
Jón Pétur Zimsen, aðstoðarmaður Lilju Alfreðsdóttur. mbl.is/Valli

Jón Pétur Zimsen, aðstoðarmaður Lilju D. Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra, mun láta af störfum á fimmtudag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Í henni segir að Jón hafi starfað sem tímabundinn aðstoðarmaður mennta- og menningarmálaráðherra og sinnt verkefnum á menntaskrifstofu ráðuneytisins.

Hann hafi meðal annars komið að undirbúningi löggjafar um eitt leyfisbréf fyrir kennara sem taka muni gildi í ársbyrjun 2020, aðgerðum sem miði að fjölgun kennara, undirbúningi menntastefnu til ársins 2030 og einnig endurskoðun aðalnámsskrár grunnskóla og mati á innleiðingu hennar.

Jón Pétur hefur starfað að skólamálum um árabil og var áður skólastjóri Réttarholtsskóla. Segir í tilkynningunni að hann muni aftur hefja störf í Réttarholtsskóla en sinni áfram verkefnum sem tengist endurskoðun aðalnámsskrár og eflingu starfsumhverfis kennara.

mbl.is