Dularfull máltíð á íslenskum stað

Laura setti myndina upprunalega inn til að árétta eðlilega kröfu …
Laura setti myndina upprunalega inn til að árétta eðlilega kröfu sumra neytenda: Gefið okkur diska! Málið vatt upp á sig, því fólk átti mjög erfitt með að átta sig á því hvað var eiginlega á myndinni. Tugir manna hafa sagt sína skoðun á Twitter. Ljósmynd/Laurapicklechop

„Vinur minn fékk þetta á veitingastað á Íslandi. Ég get ekki gert upp við mig hvort þetta sé vísun í einhvers konar varðeld eða sé einfaldlega kjúklingafótur,“ segir í færslu á Twitter um myndina hér að ofan. 

Hvað er þetta? Þetta er vissulega í laginu eins og kjúklingafótur, þrír mislangir limir sem gætu verið tær. Ef myndin er þó gaumgæfð sést fljótt að ekki er um neins konar kjöt að ræða heldur virðist þetta vera einhvers konar þykk trjágrein.

Og það er rétt! Þetta er norskt grenitré, sem notað er sem diskur á Narfeyrarstofu á Stykkishólmi. Norskt, nánar tiltekið frá Drammen í Noregi. Sá 70 þúsund manna strandbær í grennd við Osló er vinabær Stykkishólms. Ár hvert fær Stykkishólmur jólatré að gjöf frá vinum sínum Norðmönnum og setur það upp við hátíðlega athöfn. Jólatré hafa takmarkaðan starfsaldur, nokkrar vikur öllu jöfnu, en þegar þau fara á eftirlaun má vel koma þeim í gagnið.

Það er gert hér: Það sem áður var grenitré er skorið niður og notað sem diskar á fínum veitingastað. Fleiri réttir á staðnum eru bornir fram á grenitrénu, sem er pússað vandlega áður og útbúið svo það sé hæft til framreiðslu. 

Drammen er vinabær Stykkishólms í Noregi. Drammenmenn sendu Stykkishólmi jólatré …
Drammen er vinabær Stykkishólms í Noregi. Drammenmenn sendu Stykkishólmi jólatré fyrir áramót, sem tendrað var við hátíðlega athöfn. Eftir jól fékk tréð nýtt hlutverk sem diskur á veitingastað. Ljósmynd/Wikimedia

Samkvæmt upplýsingum frá Narfeyrarstofu, þar sem í raun er rekinn einn veitingastaður á neðri hæð og annar fínni á efri, er myndin af einum forréttanna í boði á staðnum. Þetta er engin sjoppufæða, heldur rauðbeðugrafinn lax með súrsuðum rauðbeðum ofan á og djúpsteiktum sölum. Skreytt og bragðbætt með piparrótarmajonesi. 

Í öndverðu var ekki von nema spurt væri:


Svarið var hvorki varðeldur né kjúklingafótur, né nokkuð annað fáranlegt. Eftir að blaðamaður fór að grafast fyrir um málið tókst honum sem sé að grafa upp að þetta væri bara spurning um grafinn lax. Bara matur á fínum veitingastað framreiddur með frumlegasta móti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert