Elín vonar að kettirnir hafi sloppið

Slökkviliðið á Kanarí í baráttu við skógareldinn.
Slökkviliðið á Kanarí í baráttu við skógareldinn. Ljósmynd/Bomberos Gran Canaria

„Ég hefði aldrei getað ímyndað mér hvað þetta gæti verið taugatrekkjandi. Maður sér svona í sjónvarpinu öðru hvoru, en það er allt annað að lifa þetta,“ segir Elín Ágústsdóttir Finnbogadóttir, íbúi á Kanarí, í samtali við mbl.is. Hún var ásamt eiginmanni sínum vakin klukkan tvö í nótt og gert að yfirgefa bústað hjónanna.

Þá hafi það verið sérstök upplifun „að sjá eldanna og þegar lögreglan kemur með sírenur og segir öllum að fara út strax. Það er svolítið skrýtið að lýsa þessu.“

Miklir skógareldar eru á eyjunni og hefur nokkrum vegum verið lokað og fleiri svæði rýmd.

Elín býr á ensku ströndinni og hefur búið á eyjunni Gran Canaria í fjörutíu ár. „Maðurinn minn er héðan og við erum búin að koma okkur upp hellum uppfrá,“ útskýrir hún og vísar til þess að hellum í fjalllendi eyjunnar sé umbreytt í sumarbústaði.

„Við erum búin að vera þarna voða mikið í sumar og við vorum þar þegar þetta skeði.“

Tók prinsinn með sér

„Þetta var um klukkan tvö í nótt,“ svarar hún er blaðamaður spyr hvenær hjónunum var gert að yfirgefa bústaðinn. „Ég hugsa að ég hefði aldrei heyrt köllin því að svefnherbergið er í helli með þykka veggi. En mágkona mín kom og barði að utan hjá okkur.“

Elín segir hjónin hafa komið sér út í hvelli og hafi þurft að skilja tvo ketti af þremur sem hjónin eiga eftir. „Ég bara fann þá ekki þegar allt var að gerast, en ég tók aðalprinsinn með mér,“ segir hún og kveðst bjartsýn á að kettirnir tveir spjari sig. „Þeir eru vanir að vera útigangandi þarna uppfrá, þannig að ég er að vona allt það besta.“

„Maðurinn minn er 69 ára og fæddur og uppalinn hér. Ég spurði hann hvort hann hafi einhvern tímann upplifað annað eins. Hann sagði nei og að hann mundi ekki eftir því nokkurn tíma í lífinu að hafa verið ræstur út og þurfa að yfirgefa heimilið,“ segir Elín.

Vonar að allt gangi á besta veg

„Systurdóttur mannsins míns hefur fengið að snúa aftur í þorpið sitt og er komin þangað. Hún segir að allt sé brunnið fyrir utan hjá henni, en hellarnir hennar hafa sloppið. Svo segist einhver vera búinn að kíkja hjá mér – sem ég vona að sé rétt – sem segir að eldurinn hafi ekki náð til okkar.“

Eldurinn á Gran Canaria hefur skilið eftir sig sviðna jörð.
Eldurinn á Gran Canaria hefur skilið eftir sig sviðna jörð. Ljósmynd/Aðsend

Hún segir kanarísk stjórnvöld hafa lýst því yfir í gærkvöldi að það væri búið að ná stjórn á útbreiðslu eldsins. Þá hafi eldurinn náð til svæðis sem telur 1 ferkílómeter, hins vegar sé sú tala orðin 10 ferkílómetrar í dag. „Þeir eru að tala um núna að það séu að koma vindar sem gætu gert allt helmingi verra.“

Fréttirnar segja núna að þúsund hafa þurft að yfirgefa heimili sín, að sögn Elínar sem bendir á að nú sést reykurinn frá ensku ströndinni sem er á suðurhluta Gran Canaria.

Elín kveðst vera bjartsýn að eðlisfari og að hún voni að allt gangi á besta veg miðað við aðstæður. Þá sé mjög jákvætt hversu mikill samhugur er á meðal íbúa á eyjunni.

mbl.is