„Vonum bara að hann finnist á lífi“

Björgunarsveitir ganga nú meðfram Þingvallavatni í leit að ferðamanninum.
Björgunarsveitir ganga nú meðfram Þingvallavatni í leit að ferðamanninum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ferðamaðurinn sem leitað er að við Þingvallavatn gisti á tjaldsvæðinu í Vatnskoti og hefur lögreglan rætt við landverði sem höfðu samskipti við hann til þess að afla frekari upplýsinga, segir Einar Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, í samtali við mbl.is.

Frá leitinni í morgun.
Frá leitinni í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hún hefur í sjálfu sér ekki formlega verið mikil, en þó komu í ljós núna í morgun í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi vísbendingar um að hann hefði verið á tjaldsvæðinu í Vatnskoti í gær og landverðirnir höfðu haft eðlileg samskipti við hann eins og aðra ferðamenn,“ svarar Einar aðspurður um aðkomu starfsmanna þjóðgarðsins að leitinni.

„Þá rámaði í manninn en sáu ekki ummerki um að hann hefði bát eða slíkt með sér. Annað höfum við ekki gert,“ bætir hann við. „Samkvæmt upplýsingum sem lögreglan hefur virðist hann hafa verið einn á ferð og við höfum ekki aðrar upplýsingar.“

Einar segir stífa norðanátt hafa einkennt veðrið á Þingvöllum allan daginn í gær og að hún hafi legið yfir Vatnskot og þvert yfir Þingvallavatn. „Þannig að ef hann hefur lagt upp frá Vatnskoti á þessum bát hefur hann farið hratt yfir vatnið. Við vonum bara að hann finnist á lífi.“

Vatnskot er við norðurenda Þingvallavatns.
Vatnskot er við norðurenda Þingvallavatns. Kort/Map.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert